Leitað en ekki alltaf fundið

Leitað var að Þjóðverjunum á Svínafellsjökli.
Leitað var að Þjóðverjunum á Svínafellsjökli. Morgunblaðið/Ómar

Í gegnum árin hafa íslenskir björgunarsveitarmenn tekið þátt í mörgum aðgerðum þar sem leitað er að týndu fólki. Stundum ber leitin árangur og hinn týndi finnst á lífi. Í öðrum tilvikum finnst lík þess sem leitað er að en af og til ber leitin engan árangur.

Nú stendur yfir leit að Ástu Stefánsdóttur í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð á Suðurlandi. Hennar hefur verið saknað í tvær vikur og er talið að lík hennar sé að finna í gljúfrinu. Aðstæður til leitar eru gífurlega erfiðar og hugsanlegt að aldrei verði hægt að leita í hverjum króki og kima gljúfursins. 

Þorsteinn Þorkelsson, sagnfræðingur og björgunarsveitarmaður í sveitinni Ársæli í Reykjavík, hefur tekið þátt í mörgum leitaraðgerðum á vegum Landsbjargar. Hann rifjar upp leitina að tveimur Þjóðverjum á Svínafellsjökli og í Skaftafelli árið 2007, leit að sænskum ferðamanni í Sólheimajökli árið 2011 og leit að rjúpnaskyttu á Skáldabúðaheiði árið 2008 í samtali við mbl.is. Tveir mannanna hafa aldrei fundist, einn fannst eftir nokkurra daga leit en annar ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að lýst var eftir honum.

Vildu fara í ísklifur og ganga á fjöll

Árið 2007 lýsti lögregla á Íslandi eftir tveimur Þjóðverjum, Matthiasi Hinz og Thomasi Grundt. Mennirnir ætluðu að ferðast um Ísland og fara í ísklifur og fjallgöngur í nágrenni Skaftafells og Vatnajökuls. Þeir voru 24 ára og 29 ára og vanir fjallamenn.

Vitað er að mennirnir keyptu kort af Skaftafelli í verslun í Þýskalandi rétt áður en þeir komu hingað til lands. Þeir skiluðu sér ekki aftur til Þýskalands með flugi sem þeir áttu bókað þann 17. ágúst. 

Meðal annars var leitað var að mönnunum í nágrenni Svínafellsjökuls og Skaftafells en tjöld mannanna fundust ofarlega í Svínafellsjökli. Þar voru persónulegir munir sem staðfesti að tjöldin hafi verið í eigu mannanna.

Þorsteinn segir að aðstæður á leitarsvæðinu hafi verið hættulegar. Svínafellsjökull er skriðjökull og þar er að finna djúpar sprungur. Svæðið er erfitt yfirferðar og hamlaði veður meðal annars leitinni.

Telja sig vita hvar mennirnir eru

Að sögn Þorsteins er líklega búið að finna staðinn þar sem lík mannanna kunna að vera, en of varasamt þykir að senda björgunarfólk til leitar á svæðinu. Ef farið verði til leitar, eru aðstæður bestar í júlí og ágúst.

Tveir leiðsögu­menn Íslenskra fjalla­leiðsögu­manna komu auga á klif­ur­línu er þeir klifu nýja leið upp vest­ur­hlíð Hvanna­dals­hnjúks í september árið 2010. Auglýst var eftir hvort fjallamenn hefðu farið um hlíðina en enginn gaf sig fram.

Undir brattasta hluta leiðarinnar komu mennirnir auga á klif­ur­línu í næsta gil­skorn­ingi við þann sem þeir klifu. Lín­an var skorðuð í sprungu á milli steina og lágu end­arn­ir niður í snjó­inn í bröttu gil­inu.

Þorsteinn segir að línan hafi legið á stað sem gæti passað við forsendur leitarinnar. Reynt hefur verið að kanna svæðið úr lofti án árangurs. Svæðið er erfitt yfirferðar og fannst línan að sögn Þorsteins í um 1.700 metra hæð á Svínafellsjökli. 

Hann segir að líklega hafi mennirnir verið að klifra í aðstæðum sem þeir réðu ekki við. Ýmislegt hafi einnig bent til þess að annar maðurinn hafi reynt að fara leið eða leiðir sem hinn maðurinn réð ekki við.

Þorsteinn segir að leitin sé á vissan hátt sambærilegt og leitin að Ástu í Bleiksárgljúfri, talið er líklegt að hana sé að finna í gljúfrinu en erfitt er að komast á ákveðna staði gljúfursins. 

Fyrst á Fimmvörðuhálsi, síðan á jökli

Leitin að sænska ferðamanninum Daniel Markus Hoij var einnig ein af umfangsmeiri leitum Landsbjargar síðustu ár. Um 500 björgunarsveitarmenn af öllu landinu tóku þátt í leitinni. Maðurinn náði samband við Neyðarlínuna kvöld eitt í byrjun nóvember árið 2011 og óskaði eftir aðstoð.

Hoij sagðist hafa gengið í sex til átta klukkustundir frá Skógum og væri staddur uppi á jökli. Í upphafi var talið að maðurinn væri á Fimmvörðuhálsi en eftir tvo daga fannst bíll hans á öðrum stað og var leitin þá færð yfir á Sólheimajökul þar sem maðurinn fannst látinn tveimur dögum síðar.  

Þorsteinn segir að svæðið hafi verið mjög erfitt yfirferðar og þá hafi einnig tekið tíma að færa hópinn yfir þegar leitarsvæðið var fært eftir að bíllinn fannst. Opnar sprungur voru á svæðinu og því þurfti að fara mjög varlega. Björgunarfólkið seig ofan í sprungur, notaði brodda og axir og lagði línur. Að lokum fannst látinn Hoij í mjórri sprungu í um 600 metra hæð.

Fannst við jaðar leitarsvæðisins

Leitað var í rúma viku á Skáldabúðaheiði í nóvember og desember árið 2008 að manni á sjötugsaldri, Trausta Gunnarssyni. Hann var rjúpnaskytta og hafði gengið til rjúpna ásamt tveimur félögum sínum. Varð hann viðskila við þá og leituðu rúmlega 200 björgunarsveitarmenn og sjálfboðar víðsvegar að af landinu, án árangurs, að honum.

Þegar leitað hafði verið að manninum í rúma viku var leitinni frestað vegna aðstæðna á leitarsvæðinu. Snjóföl var yfir öllu svæðinu og erfitt að leita. 

Hundar voru notaðir við leit­ina, sem og hest­ar en gangna­menn úr sveit­inni sem þekktu vel til, tóku einnig virk­an þátt. Einnig voru leit­ar­menn á hest­um, fjór­hjól­um og tor­færu­hjól­um. Leitað var á 70 til 80 fer­kíló­metra svæði og voru sum svæði kembd allt að fimm sinnum.

Líkið fannst í byrjun júní árið eftir í Selgils­bökk­um við Þverá, rúm­an einn og hálf­an kíló­metra norðaust­ur af bæn­um Foss­nesi í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi. Um 10 kíló­metr­ar voru frá þeim stað þar sem Trausti yf­ir­gaf bif­reið þeirra fé­laga og að þeim stað sem hann fannst. 

Að sögn Þorsteins fannst maðurinn við jaðar leitarsvæðisins sem skipulagt var. Trausti var í galla í felulitum sem gerði leitarfólki erfitt fyrir og þar að auki var snjókoma og erfiðar aðstæður til leitar. 

Björgunarsveitarfólk vinnur oft við erfiðar og hættulegar aðstæður við að …
Björgunarsveitarfólk vinnur oft við erfiðar og hættulegar aðstæður við að reyna að bjarga fólki í neyð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þjóðverjarnir Matthias Hinz og Thomas Grundt týndust á Svínafellsjökli árið …
Þjóðverjarnir Matthias Hinz og Thomas Grundt týndust á Svínafellsjökli árið 2007 og hafa enn ekki fundist. mbl.is/Rax
Um 10 kíló­metr­ar voru frá þeim stað þar sem rjúpnaskyttan …
Um 10 kíló­metr­ar voru frá þeim stað þar sem rjúpnaskyttan yf­ir­gaf bif­reið þeirra fé­laga og að þeim stað sem hann fannst. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli
mbl.is