Aftur ólykt í Norðlingaholti

Norðlingaholt
Norðlingaholt Sigurður Bogi Sævarsson

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar barst í gær kvörtun frá íbúa í Norðlingaholti sem hafði fundið spilliefnalykt, eða bensínlykt, koma upp úr niðurfalli á heimili sínu. 

Margar kvartanir bárust vegna spilliefnalyktar úr niðurföllum í Norðlingaholti í lok mars og í upphafi apríl. Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitinu hafa  hins vegar engar kvartanir borist eftirlitinu frá fréttaflutningi af málinu í apríl, þar til í gær. 

Íbúar í Norðlingaholti höfðu fundið bensínlyktina af og til á heimilum sínum frá upphafi árs. Málið kom þó ekki á borð borgaryfirvalda fyrr en 20. mars þegar íbúar kvörtuðu formlega við borgaryfirvöld yfir ólyktinni. 

Málið ennþá opið 

Rósa Magnúsdóttir, hjá heilbrigðiseftirlitinu, segir að borgaryfirvöld séu engu nær því að vita af hverju ólyktin stafar. „Málið er ennþá opið og við munum áfram reyna að finna skýringu,“ segir Rósa. 

 Hún segir að málið hafi verið rannsakað í apríl og ýmsir möguleikar kannaðir. Meðal annars hvort að ólyktin gæti stafað af ólöglegri losun einhverra fyrirtækja. „Okkar reynsla er sú að fólk er ekki að leika sér að því að menga. En maður veit aldrei og við fórum t.a.m. yfir mengunarvarnarbúnað bensínstöðvarinnar sem þarna er,“ segir Rósa.

Fundu ekkert líklegt fyrirtæki 

Hún segir ómögulegt að segja til um magn þeirra spilliefna sem ætla má að losað hafi verið. Þó er ljóst að lyktin fannst víða í hverfinu. „Við könnuðum hver gæti hugsanlega verið að stunda losun í svo miklu magni, en við fundum ekkert fyrirtæki sem var líklegt í það. Eins finnst manni líklegt að nágrannar hefðu orðið varir við stórfellda losun,“ segir Rósa.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert