Kallað eftir viðbrögðum almennings

Frá blaðamannafundinum í morgun. Skúli Magnússon héraðsdómari, Sigurður Líndal lagaprófessor …
Frá blaðamannafundinum í morgun. Skúli Magnússon héraðsdómari, Sigurður Líndal lagaprófessor og formaður stjórnarskrárnefndar og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert

Tækist að setja saman frumvarp til breytinga á stjórnarskránni varðandi möguleika almennings á að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamstarfs, um auðlindir og umhverfismál, væri það á meðal mestu breytinga sem gerðar hafa verið á henni til þessa. Þetta sagði Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent, á blaðamannafundi stjórnarskrárnefndar í morgun en hann er einn nefndarmanna.

Kynnt var fyrsta áfangaskýrsla stjórnarskrárnefndarinnar á fundinum en nefndin var skipuð síðastliðið haust af forsætisráðherra og sitja í henni fulltrúar allra þingflokka á Alþingi. Markmið nefndarinnar er að vinna frumvarp að breytingum á stjórnarskránni og hefur hún kjörtímabilið til þess. Ekki liggja fyrir niðurstöður í starfi stjórnarskrárnefndarinnar heldur var tilgangurinn með fundinum að greina frá þeim umræðum sem átt hafa sér stað innan hennar og kalla eftir viðbrögðum almennings.

Fjögur mál hafa einkum verið til umræðu innan stjórnarskrárnefndarinnar til þessa eins og áður segir: möguleikar almennings til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamstarfs, auðlindir og umhverfismál. Tekin eru saman í skýrslunni helstu sjónarmið sem komið hafa fram til þessa í fyrri vinnu í tengslum við breytingar á stjórnarskránni sem og sú umræða sem fram hefur farið í nefndinni. Að endingu eru settar fram spurningar í lok umfjöllunar um hvern málaflokk.

Verði ekki hversdagsleg leið til ákvarðanatöku

Fram kemur í skýrslunni að þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta gætu verið heppilegri farvegur en synjunarvald forseta. Heimild hans gæti þó staðið óbreytt þó einnig væri opnað á slík þjóðaratkvæði. Hins vegar er lögð áhersla á að þjóðaratkvæðagreiðslur ættu ekki að leysa fulltrúalýðræðið af hólmi eða verða hversdagsleg aðferð við töku ákvarðana. Varðandi framsal á valdheimildum er lögð áhersla á að slíkt ákvæði næði aðeins til afmarkaðs sviðs. 

Varðandi auðlindaákvæði er stjórnarskrárnefndin sammála um að þar eigi að koma fram heimild ríkisins til gjaldtöku af heimildum sem veittar eru einkaaðilum til nýtingar auðlinda sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, til að mynda varðandi fiskveiðar í sjó. Hins vegar sé óraunhæft að kveða á um skyldu í því sambandi eða nákvæmar upphæðir. Varðandi umhverfisvernd er nefndin sammála um að gera þurfi ráð fyrir rétti almennings til upplýsinga og áhrifa á ákvörðunartöku á sviði umhverfismála.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagðist vona að hægt yrði að ljúka vinnu nefndarinnar tímanlega svo hægt yrði að boða til þjóðaratkvæðis um breytingar á stjórnarskránni samhliða forsetakosningunum 2016. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ekki útilokað að það yrði hægt en þar spilaði ýmislegt inn í. Ekki síst hvernig gangurinn yrði í starfi nefndarinnar. Nefndarmenn voru annars sammála um að góður andi væri í nefndinni.

Áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar má nálgast á vefsíðunni www.stjornarskra.is og senda má inn athugasemdir til nefndarinnar til 1. október næstkomandi á netfangið postur@for.is merktar „Áfangaskýrsla stjórnarskrárnefndar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert