Hjólakraftur leiðir söfnunina

Hjólakraftur á æfingu fyrr í mánuðinum.
Hjólakraftur á æfingu fyrr í mánuðinum. Af Facebook síðu Hjólakrafts

„Þetta er búið að ganga alveg brjálæðislega vel og búið að vera dúndur skemmtilegt. Frábært veður næstum því allan tímann og það er klárlega góð stemning í hópnum,“ segir Þorvaldur Daníelsson liðstjóri Hjólakrafts, sem eru efst í áheitasöfnunarkeppni WOW Cyclothon.

„Við erum núna við Nesjar. Akkúrat núna sjáum við Vatnajökull en við eigum sennilega eftir að sjá hann eitthvað áfram,“ segir Þorvaldur og hlær. „Það er engin alvöru þreyta komin í hópinn, fólk bara jafnar sig og heldur síðan áfram.“

Hjólakraftur hefur verið samferða liði WOW stelpna síðan á Norðurlandinu. „Við hittum þær í Miðfirði og höfum verið samferða þeim síðan. Það er gaman að hafa félagsskap í þessu.“

Þreföld barátta

10 meðlimir skipa Hjólakraft en hópurinn var settur á laggirnar fyrir börn og unglinga sem voru við það að tapa í baráttu við lífstílssjúkdóma. Upprunalega hugmyndin var og er að kynna krakkanna fyrir hjólaíþróttinni, en þau höfðu ekki fundið sig í öðrum íþróttum. Þorvaldur er upphafmaður og jafnframt stjórnandi hópsins ásamt Tryggva Helgasyni, barnalæknis við Heilsuskólann á LSH.

Samkvæmt Þorvaldi er barátta þeirra þreföld: Barátta um bætta heilsu, baráttan við að hjóla saman hringveginn og síðast en ekki síst að vinna WOW áheita keppnina. Það verður að segjast að sú áskorun sem liggur í því að hjóla hringinn er fyrir þennan hóp er ívið þyngri áskorun heldur en fyrir flesta aðra sem nú hjóla hringinn.

Eins og staðan er núna er Hjólakraftur að ná markmiði sínu, en hópurinn hefur safnað mestum pening í áheitakeppninni, en hópurinn hefur nú safnað 771.000 krónum.

„Markmiðið er að sigra okkur sjálf“

Samkvæmt Þorvaldi vonast hópurinn eftir því að koma í mark á 56 eða 57 klukkustundum. Það þýðir að hópurinn myndi koma í mark fyrir hádegi á morgun. „Við yrðum rosalega glöð ef það myndi takast.“

Að sögn Þorvaldar er markmiðið að sigra áheitakeppnina. „Markmiðið er þó líka að sigra okkur sjálf. Til að mynda er ein hérna sem þolir ekki göng og fékk að sleppa við þau. Í staðinn bauðst hún til að hjóla í gegnum Almannaskarð, sem hún gerði.“

Áheitasíða Hjólakrafts.

Facebook síða Hjólakrafts.


Meðlimir Hjólakrafts á þjóðveginum.
Meðlimir Hjólakrafts á þjóðveginum. Af Facebook síðu Hjólakrafts
Af Facebook síðu Hjólakrafts
Af Facebook síðu Hjólakrafts
mbl.is