Opna yfir Múlakvísl í júlí

Flutningabíll á leið yfir bráðabirgðabrúna sem reist var eftir að …
Flutningabíll á leið yfir bráðabirgðabrúna sem reist var eftir að jökulhlaup rauf gömlu brúna. mbl.is/Sigurður Bogi

Stefnt er á að opnað verði fyrir umferð um nýju brúna yfir Múlakvísl í byrjun júlí á þessu ári. Að sögn Arinbjarnar Bernharðssonar, verkstjóra Eyktar á staðnum, hafa framkvæmdir gengið vel enda vinnudagarnir margir hverjir verið ansi langir. Verkinu verður að fullu lokið í byrjun ágústmánaðar.

„Gamla brúin var byggð hátt miðað við landið á sínum tíma en Múlakvísl ber mikið fram af aur og sandi sem fyllti upp farveginn undir brúnni. Svo þegar hlaupið kom var ekkert pláss undir brúnni fyrir vatnið svo hún bara gaf sig,“ segir Einar Már Magnússon, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, um örlög gömlu brúarinnar.

Vegirnir beggja vegna við nýju brúnna eru lægri en ástæðan fyrir því er svo að vatn flæði frekar yfir veginn en brúnna sjálfa. Segja má að nokkurskonar yfirföll verði á endum brúarinnar.

Varnargarður verður reistur í farveginum talsvert fyrir ofan brúnna en hann mun taka á móti hlaupum og sporna við því að áin nái að grafa sig til austurs.

Rofnaði í jökulhlaupi

Sem kunnugt er rofnaði gamla brúin í skyndilegu jökulhlaupi sem kom úr kötlum syðst í Mýrdalsjökli. Hlaupið átti sér stað þann 9. júlí árið 2011 og eru því liðin tæp 3 ár síðan. Sett var upp bráðabirgðabrú en upphaflega stóð til að ljúka smíði nýrrar brúar sumarið 2012. 

Það var svo í júní í fyrra sem Vegagerðin og byggingarfélagið Eykt undirrituðu samning um smíði nýju brúarinnar, en þá var áætlað að verkinu yrði lokið í september 2014. Eyktarmenn eru því talsvert á undan áætlun enda hafa þeir unnið hörðum höndum að sögn Arinbjarnar.

Vegagerðin biðlar til ökumanna að aka varlega og virða þær merkingar sem eru á staðnum. Umferðarskipulag verður fremur óvenjulegt fyrsta mánuðinn því í raun verður ekið yfir tvær brýr þar til verkinu verður að fullu lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert