Sandskeið tilheyrir Kópavogi

Svifflugfélag Íslands hefur m.a. haft aðstöðu á Sandskeiði
Svifflugfélag Íslands hefur m.a. haft aðstöðu á Sandskeiði mbl.is/Árni Sæberg

Óbyggðanefnd hefur úrskurðað að Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna sé innan staðarmarka Kópavogsbæjar. Um er að ræða svokallað staðamarkamál, en úrskurðurinn var kveðinn upp þann 20. júní. Svæðið, sem er svokölluð þjóðlenda, nær m.a. yfir Sandskeið, en bæði Kópavogsbær og Reykjavíkurborg kröfðust þess að svæðinu yrði í heild sinni skipað innan sinna staðarmarka. Mosfellsbær gerði jafnframt kröfu til Sandskeiðs.

Fallist var á kröfur Kópavogsbæjar í málinu og felur úrskurðurinn í sér að Kópavogur fari með lögsögu á svæðinu, en í henni felst m.a. skipulagsvald.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna nær yfir eftirfarandi svæði samkvæmt úrskurðinum:

Frá Sýslusteini austan Lyklafells eftir árfarvegi Lyklafellsárinnar fyrir sunnan Lyklafell og niður í Nautapoll. Úr Nautapolli meðfram heiðarbrún í vatnsfarveginn við norðurenda Vatna-ássins. Úr því ræður norðurkvísl Lyklafellsárinnar þangað til hún fellur í Fossvallaá. Syðsta
kvíslin af Fossvallaám frá Lækjarmóti, sem rennur frá bænum, ræður upp að þúfu, sem stendur í Holtstanga fyrir neðan Neðrivötn, þaðan til útsuðurs í mógrýtisklett, með rauf í, er snýr suður og þaðan í Sandfellshnjúk. Frá Sandfellshnjúki er farið til norðvesturs í Markhól.
Úr Markhól í Húsfell, þaðan í Þríhnjúka og áfram í Bláfjallahorn. Síðan eftir hæstu tindum Bláfjalla í stöpul á Vífilsfelli. Þaðan í fyrrgreindan Sýslustein.

Úrskurður óbyggðanefndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert