Samningslausir í fimm mánuði

Stjórn Kennarasambands Íslands lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála í samningaviðræðum Félags tónlistarskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla við Samband íslenskra sveitarfélaga en kjarasamningar þessara félaga hafa verið lausir í um 5 mánuði. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Kennarasambands Íslands (KÍ) um stöðu mála í kjaraviðræðum Félags tónlistarskólakennara (FT) og Félags stjórnenda leikskóla (FSL) við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS).

„Kröfur félaganna eru samhljóma kjarakröfum annarra aðildarfélaga KÍ sem hafa nú þegar skrifað undir kjarasamninga við SÍS. Í því ljósi er seinagangur kjaraviðræðna óskiljanlegur auk þess sem megin samningsmarkmið Sambands íslenskra sveitarfélaga falla að kjarastefnu KÍ hvað varðar jafnrétti í launasetningu. Meðal markmiða SÍS er að tryggja að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti og í stefnu KÍ segir að félagsmönnum KÍ með sambærilega menntun og reynslu skuli ekki mismunað í launum eftir skólagerð eða skólastigi.
Í þróun menntakerfa á 21. öld er áhersla lögð á skapandi hugsun og menningarlega meðvituð samfélög með áherslu á heildstætt skipulag menntunar. Samstarf og samþætting eru grunnur menntunar framtíðar sem þarfnast þekkingar allra og virkrar þátttöku ólíkra mennta-, lista- og menningarstofnana.
Ungt fólk og gott menntakerfi ræður för varðandi vöxt og þróun samfélagsins. Við viljum auka gæði menntunar, við viljum vera framsækin og í fremstu röð. Menntun er víðtækt samstarfsverkefni sem varðar okkur öll.
Með vísan til sameiginlegra markmiða og hagsmuna hvetur stjórn KÍ stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga til að ljúka þessari samningalotu aðila með sæmd og ganga frá kjarasamningum við þau tvö félög sem enn er ósamið við, Félag tónlistarskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla, áður en sumarlokun hefst hjá embætti sáttasemjara ríkisins,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert