Standa í stríði um skólastofur

Tvær stofur félagsins brunnu til grunna á lóð Rimaskóla í …
Tvær stofur félagsins brunnu til grunna á lóð Rimaskóla í lok apríl mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tvær færanlegar skólastofur í eigu Svifflugfélags Íslands voru fluttar á geymslusvæði sunnan Straumsvíkur í gærkvöldi, en þær höfðu staðið óhreyfðar á lóð Rimaskóla í ríflega ár frá kaupum. Svifflugfélag Íslands hefur staðið í miklum deilum við yfirvöld vegna málsins, en félagið vildi fá að flytja þrjár stofur á svæði sitt við Sandskeið fljótlega eftir kaupin vorið 2013.

Þetta reyndist þó hægara sagt en gert þar sem stofurnar eru yfir löglegri hámarksbreidd farms og þarf því að flytja þær með lögreglufylgd. Fyrstu beiðni Svifflugfélagsins um flutningsheimild var hafnað af Samgöngustofu, en hún krafðist heimildar frá sveitarfélagi áfangastaðarins, Sandskeiðs.

Lögsögumál voru í ólestri

Lögsögumál voru þá óljós á svæðinu og gerðu nokkur sveitarfélög lögsögukröfu á Sandskeið. Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær gerðu ekki athugasemd við málið en Kópavogsbær hafnaði stöðuleyfi fyrir stofurnar. Höfnunin var á þeim forsendum að beiðni Svifflugfélagsins um stöðuleyfi samræmdist ekki grein 2.6.1. í byggingarreglugerð. Byggingafulltrúi hafnaði því erindi félagsins.

Nýlegur úrskurður óbyggðanefndar kveður á um að afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna sé innan staðarmarka Kópavogsbæjar, en Sandskeið fellur innan þess svæðis. Bæjaryfirvöld í Kópavogi fara því nú með lögsögu og skipulagsvald á Sandskeiði.

Segir málið stranda á lögreglustjóra

Svifflugfélagið kærði höfnun Samgöngustofu til innanríkisráðuneytisins.
Eftir umfjöllun umboðsmanns Alþingis felldi ráðuneytið höfnunina úr gildi og samþykkti kröfu félagsins um að ekki væri lagaheimild til að krefjast heimildar sveitarfélags og aðeins lögreglustjóri gæti neitað flutningsheimild.

Kristján Sveinbjörnsson, formaður Svifflugfélags Íslands, segir málið þó enn hafa tafist en það hafi strandað hjá lögreglustjóra.

„Lögreglustjóri hafnaði flutningsleyfi á Sandskeið á sömu ólögmætu forsendum og Samgöngustofa og krefst heimildar Kópavogs fyrir flutningunum,“ segir Kristján.

Höfnun byggingafulltrúa Kópavogs á stöðuleyfi fyrir stofurnar var kærð til Úrskurðarnefndar um auðlindamál og er þar í ferli, en Kópavogsbær mun ekki aðhafast frekar þar til nefndin hefur skilað niðurstöðu sinni að sögn upplýsingafulltrúa bæjarins.

Tvær stofur brunnu til grunna

Svifflugfélagið keypti fimm færanlegar skólastofur við Rimaskóla um vorið 2013. Félagið seldi eina stofuna Fisfélaginu, en hún var flutt á Hólmsheiði vandkvæðalaust. Að sögn Kristjáns stóð síðan til að flytja þrjár stofur á Sandskeið og selja þá fjórðu, en félagsmenn töldu upphaflega að ekki yrði vandkvæðum bundið að fá leyfi fyrir slíkum flutningum.

Síðastliðinn apríl kviknaði eldur í tveimur stofanna og þær brunnu til grunna, en Kristján segist lengi hafa óttast að slíkt atvik gæti átt sér stað.

„Við vorum búnir að vara við því margoft að þetta gæti gerst, enda mikil hætta á íkveikju þegar stofurnar stóðu þarna auðar,“ segir Kristján.

Kristján segir tryggingamál á stofunum hafa verið erfið þar sem þær voru á lóð Reykjavíkur.
„Félagið gat ekki tryggt stofurnar á sínu nafni þar sem þær voru á lóð borgarinnar. Við sömdum hins vegar við tryggingafélagið og borgina um að fá umboð til þess að ganga frá þeim málum þegar búið væri að flytja stofurnar.“

Keyrðu yfir Sandskeið á leið til Straumsvíkur

Stofurnar tvær sem eftir standa voru fluttar á geymslusvæði sunnan Straumsvíkur í gær, en Kristján telur nokkuð athyglisvert hvernig staðið var að þeim flutningum.

„Við neyddumst til þess að beygja okkur undir geðþóttaákvörðun lögreglustjóra og flytja stofurnar til Straumsvíkur. Samgöngustofnun, sama stofnun og ásamt lögreglu synjar um heimild til að flytja stofurnar á Sandskeið, krafðist þess hins vegar að stofurnar yrðu fluttar í gegnum Sandskeið á leið sinni til Straumsvíkur. Þaðan fara þær Bláfjallaveginn yfir til Hafnarfjarðar,“ segir Kristján.

Um 100 meðlimir eru í Svifflugfélaginu, þar af 50 virkir, en Kristján telur yfirvöld með framgöngu sinni fara illa með lítið íþróttafélag.

„Yfir 500 tímar af vinnu liggja í málinu, en við fáum alltaf sama svarið frá yfirvöldum. Það eru skilaboð um að við getum bara kært sýnist okkur svo. Við höfum gert það nokkrum sinnum og höfum reynt að leysa þetta mál af öllum mætti í meira en ár.“

Frétt mbl.is: Sandskeið tilheyrir Kópavogi

Frétt mbl.is: Fengu ekki að flytja skólastofurnar

Svifflugfélagið vildi fá að flytja skólastofurnar á svæði sitt á …
Svifflugfélagið vildi fá að flytja skólastofurnar á svæði sitt á Sandskeiði mbl.is/Árni Sæberg
Flytja þarf stofurnar í lögreglufylgd, en Kristján segir málið stranda …
Flytja þarf stofurnar í lögreglufylgd, en Kristján segir málið stranda á lögreglustjóra sem neiti að flytja þær án samþykkis Kópavogsbæjar mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina