„Eins og þruma úr heiðskíru lofti“

Höfuðstöðvar Fiskistofu í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Fiskistofu í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er náttúrulega þungt hljóð í fólki hérna,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði og til Akureyrar.

Guðlaug segir að boðaður hafi verið sérstakur fundur í bæjarráði Hafnarfjarðar í fyrramálið þar sem kynnt verða áhrif þessarar ákvörðunar á bæjarfélagið og hvað hún þýðir fyrir það. „Þetta kemur fyrirvaralaust þannig að það þarf að átta sig á umfanginu. Fyrir vikið var strax kallaður saman auka bæjarráðsfundur. Við fáum upplýsingar um stöðuna í fyrramálið og setjumst yfir málið.“

Guðlaug segir að svona lagað sé alltaf högg. „En við viljum einfaldlega fá betri yfirsýn á umfangið og það er það sem er á dagskrá í fyrramálið og í framhaldi af því metum við næstu skref.“ Bæjaryfirvöld séu að vinna heimavinnuna sína og fylgjast með. „Þetta kemur bara eins og þruma úr heiðskíru lofti og núna setjumst við bara yfir málið og bregðumst við.“

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. mbl.is
mbl.is