Skýrsluna ber að taka alvarlega

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra - Illugi telur skýrsluna um ástand stærðfræðikennslu …
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra - Illugi telur skýrsluna um ástand stærðfræðikennslu í framhaldsskólum vel unna og að hana beri að taka alvarlega Ómar Óskarsson

„Það er nauðsynlegt að taka þessa skýrslu alvarlega. Hún er vel unnin og gefur sterkar vísbendingar um að það þurfi að skoða stærðfræðikennsluna bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi,“ sagði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Einsog fram hefur komið sýnir ný skýrsla, sem unnin var fyrir Menntamálaráðuneytið, fram á ýmislegt sem megi betur fara í stærðfræðikennslu í framhaldsskólum landsins. Margir nemendur eigi í erfiðleikum með stærðfræði þegar í háskóla er komið.

Margt kemur til

„Þetta, ásamt þeim vísbendingum sem við höfum úr PISA-könnununum, bendir sterklega til þess að við séum ekki að ná ásættanlegum árangri í kennslu á stærðfræði,“ sagði Illugi en aðspurður um skýringar á ástandinu sagði hann margt koma til.  

„Það er ekki eitthvert eitt atriði sem skýrir þessa stöðu. Það eru ýmsir samverkandi þættir. Til dæmis er bent á að okkur vanti fleiri kennara með góðan undirbúning undir þetta starf. Síðan er þetta líka spurning um kennsluaðferðir, námsefnið, og eins líka hversu áhugasamir nemendur eru í sínu námi þegar kemur að stærðfræðikennslunni.

Það er augljóst að við þurfum að fara yfir stærðfræðikennsluna með afar gagnrýnum hætti.“

Greinargott yfirlit um ástandið

Skýrslan veiti greinargott yfirlit um námsefni og kennsluhætti. „Skýrslan tekur nokkra skóla til skoðunar. Að vísu eru ekki allir skólarnir undir en nógu stórt úrtak til að hægt sé að álykta útfrá því. Það er ekki bara framhaldsskólinn sem er vandamál heldur líka undirbúningur krakkanna þegar þau koma úr grunnskóla.“

Illugi bendir á að margt sé til fyrirmyndar í skólakerfinu. „Ég vil líka, að gefnu tilefni, koma á framfæri að þótt þarna sé kominn fram þáttur sem þurfi að bæta er ýmislegt til staðar í okkar skólakerfi sem er mjög gott og vel er staðið að. Hér er enginn áfellisdómur yfir allt skólakerfið, en þó er verið að benda með mjög skýrum hætti á hluti sem eru ekki í lagi hjá okkur og það í grundvallarfagi einsog stærðfræði. Menn geta ekki lokað augunum fyrir slíku. “

Endurgjöf til kennara lítil

Samkvæmt niðurstöðum úr TALIS könnun frá 2013, sem ber kennslu á Íslandi saman við ýmis önnur lönd, er endurgjöf til kennara um starf þeirra umtalsvert minni en í samanburðarlöndunum.

„Það er mikið umhugsunarefni fyrir okkar skólakerfi hversu lítil endurgjöf er til kennaranna, sem þýðir með öðrum orðum að þeir séu tildurlega einangraðir í sínu starfi,“ sagði Illugi. „Hvort það skýri stöðuna í stærðfræðinni umfram annað treysti ég mér ekki til að fullyrða án frekari rannsókna. Yfirvöld menntamála og kennarar þurfa að skoða til hvaða aðgerða hægt sé að grípa til að bæta þennan þátt.

það reynist erfitt að vinna hvaða starf sem er án þess að fá endurgjöf fyrir það.“

Tillögur undir skoðun

Ein umbótatillaga skýrsluhöfunda var að koma á fót sérstöku fagráði til að hafa um­sjón með end­ur­mennt­un kenn­ara, kennslu­efni og kennslu í fram­halds­skóla­stærðfræði.

„Við höfum tekið á móti skýrslunni og þar með þessari tillögu. Hugmyndin um slíkt fagráð er því til skoðunar hjá okkur en ekki er gott að segja til hvaða aðgerða beri að grípa og hvort þessi leið verði farin umfram einhverja aðra. Þó er þetta vissulega tillaga sem þarf að taka afstöðu til.“

Í framhaldi þess að skýrslan var gerð opinber muni Menntmálaráðuneytið funda við skýrsluhöfunda. „Við þurfum að setjast niður með skýrsluhöfundum sem fyrst og ræða þetta. Í aðdraganda skýrslunnar höfum við verið að skoða þessi mál og glöggvað okkur á ástandinu, því við höfum heyrt svipaðar fréttir úr öðrum áttum.“

Deildir innan háskólanna sem byggja mjög á stærðfræðiundirbúningi hafi tjáð ráðuneytinu að undirbúningur nemenda þurfi að vera betri.

„Það þarf að reyna að skýra hverju það sætir áður en við grípum til aðgerða.

Tillaga skýrslunnar um fagráð byggir hinsvegar á einhverju sem allir geti verið sammála um. Hér þurfa að eiga sér stað umbætur. Við getum ekki lokað augunum fyrir þessu og talið okkur í þeirri trú að þessi mál séu í lagi hjá okkur.“

Sjá frétt mbl.is: Of fá­menn­ur hóp­ur í stærðfræðinámi

Sjá frétt mbl.is: Úrbæt­ur í stærðfræðikennslu kosti aukið fjár­magn

Sjá frétt mbl.is: Menntaðir kennarar laðast að MR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert