Íslensk ölgerð á HM bjórsins

Þjóðverjar fagna gjarnan sigrum á knattspyrnuvellinum með ofgnótt bjórs.
Þjóðverjar fagna gjarnan sigrum á knattspyrnuvellinum með ofgnótt bjórs. AFP

„Við Íslendingar erum alltaf duglegir að styðja það sem er íslenskt til landvinninga þannig að við vonum að fólk verði duglegt að kjósa,” segir Guðjón Guðmundsson, talsmaður Einstakrar ölgerðar, en fyrirtækið er eitt 32 minni brugghúsa sem valin voru til keppni á nokkurs konar HM keppni bjórsins.

Keppnin ber heitið „World Sup 2014“ og er haldin af bjórsíðunni Perfect Pint, en heitið er augljós tilviljun í enskt heiti heimsmeistarakeppninnar.

Úrslitin ráðast í netkosningu

32 brugghús voru valin í keppnina algjörlega án þeirra vitundar, en öll eru þau ölgerðir í minni kantinum. Tvö brugghús etja kappi hverju sinni og ráðast úrslitin á vali netverja í kosningu.

Einstök vann í fyrstu umferð á móti áströlsku ölgerðinni Little Creatures, en í dag keppir hún við bresku smiðjuna Brewdog. Um er að ræða vinsæla ölgerð þar í landi og er því þörf á góðum stuðningi ef sigur á að vinnast að sögn Guðjóns.

Meirihluti fluttur út

Gengi Einstakrar hefur verið gott undanfarin ár og er meirihluti framleiðslunnar fluttur á erlendan markað.

„Afurðirnar eru fáanlegar í Kaliforníu, Flórída og New York ríkjum Bandaríkjanna auk Englands og Eistlands. Jafnframt kemur fyrsti gámurinn til Norðurlandanna á morgun og verður bjórinn einnig á markaði þar,” segir Guðjón.

Guðjón segir bjór Einstakrar vera þann mest útflutta frá Íslandi og áætlar að hann hafi verið um þriðjungur alls áfengisútflutnings frá landinu í fyrra. Hann segir bjórinn hafa fengið mjög góðar viðtökur erlendis.

„Pale Ale-bjórinn okkar var valinn einn af „100 heitustu hlutum ársins“ í fyrra af tímaritinu GQ og var hann eini bjórinn á þeim lista,” segir Guðjón.

Kemst ekki að hjá ÁTVR

Sérstakur sumarbjór er nú framleiddur af fyrirtækinu undir heitinu Arctic Berry Ale og verður hann seldur í dós. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að koma honum í sölu hér á landi.

„Það hefur reynst erfitt að koma bjórnum inn hjá ÁTVR þar sem merkingar á honum þykja ekki við hæfi. Það er því ekki ólíklegt að sumarbjórinn verði kominn á markað í Kaliforníu áður en hann verður fáanlegur hér,“ segir Guðjón.

Netkosning í keppninni

Einstök er ein 32 smærri ölgerða sem voru valdar til …
Einstök er ein 32 smærri ölgerða sem voru valdar til keppni Ljósmynd/Einstök ölgerð
Pale Ale-bjórinn var valinn einn af 100 bestu hlutum ársins …
Pale Ale-bjórinn var valinn einn af 100 bestu hlutum ársins 2013 af GQ Ljósmynd/Einstök ölgerð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert