Flugvirkjar náðu samkomulagi

Samninganefnd flugvirkja náði í dag samkomulagi við samninganefnd Samtaka atvinnulífsins um nýjan kjarasamning eftir ellefu tíma viðræður hjá Ríkissáttasemjara í dag. Samningurinn gildir til ágúst 2017 og verður hann kynntur félagsmönnum á mánudaginn. 

Samkomulag náðist stuttu fyrir klukkan 22 í kvöld. 

Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndarinnar segir samninginn fela í sér breytingar í átt að þeim kröfum sem flugvirkjar hafa barist fyrir. „Þetta felur í sér breytingar á vinnufyrirkomulagi og vöktum. Þetta er í átt til hagræðis og nútímavæðingar á vinnulagi.“

Hann segist bjartsýnn á að félagsmenn muni samþykkja samninginn. 

mbl.is