Bruni á sama stað árið 1975

Umfjöllun Morgunblaðsins um brunann.
Umfjöllun Morgunblaðsins um brunann.

Bruninn í Skeifunni 11 í gær er annar stórbruninn á þessu svæði en árið 1975 kviknaði í Teppaversluninni Persíu, sem stóð við Skeifuna 11 á sama stað og bruninn í gær.

Eldurinn var tilkynntur til slökkviliðs klukkan 1:35 aðfaranótt 29. októbers 1975. Stúlkur sem unnu í verksmiðjunni Brauð ehf. í grenndinni urðu varar við mikla sprengingu og héldu í fyrstu að bíll hafi keyrt á húsið. Svo var þó ekki og þegar stúlkurnar litu út sáu þær eldtungurnar standa út úr gluggum teppaverslunarinnar. Stúlkurnar létu strax vita og slökkvilið kom á svæðið. Samkvæmt frétt  Morgunblaðsins 30. október var slökkviliðið um tvo tíma að ráða niðurlögum eldsins.

Ásamt teppaversluninni var fyrirtækið Stilling með aðstöðu í húsinu. Eldurinn komst í gegnum vegg á milli verslananna og inn á verðmætan lager Stillingar sem brann allur. Jafnframt brann allt sem brunnið gat í teppaversluninni og var það ljóst daginn eftir brunann að tjónið af brunanum skipti tugum milljóna króna. 

Ekki munaði miklu að stórslys ætti sér stað morguninn eftir þegar að hluti af þaki hússins féll í brunarústirnar. Aðalvarðstjóri slökkviliðsins á þeim tíma, hafði staðið þar sem þakið féll aðeins nokkrum sekúndum áður og var nýgenginn í burtu. Auk þess var fjöldi manns inni í húsinu. Í kjölfarið var öllum bannað að vera á ferli í rústunum. 

Elsti hluti húss­ins í Skeifunni 11 var byggður árið 1966 og nýrri hlut­ar árið 1983.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert