Neil Young rokkaði í Laugardalshöll

Skallapopparinn Neil Young á sviði Laugardalshallar í kvöld.
Skallapopparinn Neil Young á sviði Laugardalshallar í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að vera orðinn 69 ára gamall virðist Neil Young ekki hafa neinn áhuga á að taka það rólega. Hann tilkynnti troðfullri Laugardalshöll í kvöld að hann hyggist koma aftur til Íslands.

Young hóf tónleikaferð sína um heiminn í kvöld með því að stíga á svið í Laugardalshöllinni með hljómsveit sinni Crazy Horse. Á milli laga gaf hann sér tóm til að spjalla við salinn og sagði m.a. að Íslendingar væru afar heppnir með að geta drukkið vatnið beint úr krananum. Young sagði landið afar fallegt og boðaði að hann muni snúa aftur.

Æskudraumur margra að rætast

Young fæddist árið 1945 og á ferli sínum hefur hann gefið út 34 sólóplötur og frá árinu 1968 er talið að hann hafi selt 35 milljón plötur. Þá er hann meðal áhrifamestu tónlistarmanna heims samkvæmt tímaritinu The Rolling Stone. Ljóst er að æskudraumur margra rættist í kvöld þegar Young steig á svið.

Ótalmargir tónlistarmenn af öllum kynslóðum síðan Young sló í gegn eru yfirlýstir aðdáendur hans: Pearl Jam tók upp plötu með honum, Sonic Youth fór með honum á tónleikaferðalag sem hafði mikil áhrif á feril sveitarinnar, Thom Yorke og félagar í Radiohead hafa margoft spilað lög hans á tónleikum og raunar eru líkindin með röddum Yorkes og Youngs oft ansi mikil. Meira að segja poppdívan Lady Gaga hefur flutt lagið Out on the weekend eftir Young.

Young er því gjarnan kallaður „guðfaðir gruggsins“ (e. godfather of grunge) og ekki að ósekju þar sem þekktustu gruggsveitirnar voru undir augljósum áhrifum af tónlist Youngs sem brást við sjálfsmorðsbréfi Kurts Cobains með því að gefa út plötuna Sleeps with angels og tileinka hana Cobain.

Ætla má að æskudraumur margra hafi ræst í Laugardalshöll í …
Ætla má að æskudraumur margra hafi ræst í Laugardalshöll í kvöld, þegar goðsögnin Neil Young steig á svið. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert