Sérsveitarmenn syntu Viðeyjarsund

Sérsveitarmenn í Viðeyjarsundi.
Sérsveitarmenn í Viðeyjarsundi.

Á dögunum þreyttu tveir lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra svokallað Viðeyjarsund. Það voru þeir Jón Kristinn Þórsson og Birgir Már Vigfússon sem syntu frá Viðey til Reykjavíkurhafnar í 12 gráða heitum sjónum. 

Sundkapparnir fengu nokkurn straum á móti sér á leiðinni þannig að sundið tók lengri tíma en áætlað var eða um tæpa tvo tíma, að því er fram kemur í frétt á lögregluvefnum.

Tilgangur Viðeyjarsundsins, sem er 4,5 km, var æfing fyrir 6,5 km langt Drangeyjarsund sem Jón Kristinn ætlar að þreyta síðar á árinu. Birgir synti með Jóni á þessari æfingu honum til halds og trausts ásamt því að þrír sérsveitarmenn fylgdu með á bát sérsveitarinnar. 

Jón og Birgir klæddust sundskýlu á sundinu en Birgir tók síðasta hluta leiðarinnar frá Viðey í svokölluðum blautbúning til þess að ná upp líkamshita enda er Birgir ekki eins vanur sjósundi og Jón Kristinn sem hefur stundað sjósund um árabil. 

Þegar til Reykjavíkurhafnar kom tóku sérsveitarmenn og bráðatæknir frá slökkviliðinu á móti sundmönnunum og endaði æfingin í heitum potti í Nauthólsvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert