Skemmdi húsið til að hindra slys

Valdimar Lúðvík Gíslason - Valdimar játar sig sekan um að …
Valdimar Lúðvík Gíslason - Valdimar játar sig sekan um að hafa eyðilagt húsið við Aðalstræti í Bolungarvík Af vef Bæjarins besta

„Spurningin var ekki hvort heldur hvenær yrði þarna óhapp. Ég ætlaði ekki að vera ábyrgur fyrir því. Ástæðan fyrir því að ég skemmdi húsið er sú að ég vildi fría mig algerlega undan þeirri ábyrgð,“ sagði Valdimar Lúðvík Gíslason, íbúi í Bolungarvík og fyrrverandi bæjarfulltrúi, sem játar á sig skemmdarverkin við Aðalstræti 16, sem áttu sér stað aðfaranótt mánudags, í samtali við mbl.is.

Ólíkt því sem mbl.is hafði eftir bæjarstjóra í gær segist Lúðvík hafa hringt og lýst yfir ábyrgð á verknaðinum sem gerandi. „Ég ber einn ábyrgð á verknaðinum.“ Valdimar var orðinn úrkula vonar um að nokkuð yrði að gert og ákvað að taka málin í sínar hendur, en að hans sögn varð næstum því skelfilegt slys vegna staðsetningar hússins, slys sem hann varð vitni að.

Valdimar lýsir atvikinu þannig að flutningabíll hafi næstum því bakkað á mann þar sem hann var á ferð um götuna. Húsið hafi þrengt að Ráðhúsi bæjarins, þar sem íbúar sækja ýmsa þjónustu, en til að komast að því frá stærra íbúahúsi fyrir innan Aðalstræti 16 þarf að fara út á götuna, að sögn Valdimars, og skapar það því slysahættu.

„Borgaralegur neyðarréttur“

Valdimar telur húsið hafa skapað hættuástand. „Það á að byrgja brunninn áður en dottið er ofan í hann.“

Aðspurður um hvort honum finnist eðlilegt að skemma húsið að nóttu til með vinnuvél, segir Valdimar að um neyðarrétt hafi verið að ræða. „Ég greip til neyðarréttar þegar ég sá að menn ætluðu ekkert að gera.“

Valdimar ber verknaðinn saman við atvik sem áttu sér stað í Aðaldal þar sem „menn gripu til neyðarréttar og sprengdu stíflu í Laxá.“

Neyðin hafi stafað af aðgerðarleysi bæjaryfirvalda. „Ég var orðinn úrkula vonar um að þeir myndu gera nokkurn skapaðan hlut. Ég vona að menn í bæjarráði og bæjarstjóri Bolungarvíkur séu menn til að axla ábyrgð á því ef þarna yrði alvarlegt slys. Hvernig þeir ætluðu að bæta það sé ég ekki fyrir mér.“

„Ómerkilegt hús“

Valdimar sat að eigin sögn í bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar á tímabilinu 1970-90. Þar beitti hann sér fyrir að ýmis „ónýt“ hús yrðu rifin í bænum. „Við byggðum nýjan bæ í Bolungarvík.“

Ekki var um merkilegt hús að ræða að mati Valdimars. „Það er engin saga bakvið þetta hús. Þetta var venjulegt, mjög lélegt og ómerkilegt íbúðarhús,“ sagði Valdimar og telur húsið auk þess gamaldags og ónýtt.

Í fundargerð bæjarráðs Bolungarvíkur kemur fram að deiliskipulag hafi m.a. miðað að því að skipa húsinu „þann sess sem saga þess og vernd­un heimta.“ Samkvæmt bæjarráði var til tals að færa húsið fjær götunni, en Valdimar gefur lítið fyrir það.

„Það stóð aldrei til að færa þetta hús. Þeir eru bara að búa það til núna að það hafi staðið til að færa húsið. Ef þeir ætla að gera eitthvað á þessari lóð þarf bara að byggja annað hús. Þeir hefðu hvorki fært þetta hús fyrir né eftir þennan atburð.“

„Ósannindi opinberrar nefndar“

„Ég hef hugsað mikið um þetta og talað við bæjaryfirvöld. Þau keyptu húsið fyrir tveimur árum og ætluðu að rífa það. Svo hleyptu þeir einhverri ríkisnefnd í þetta sem afbakar svo staðreyndir,“ sagði Valdimar, en Minjastofnun veitti ekki leyfi fyrir niðurrifi hússins.

„Þau segja að húsið hafi verið byggt í Bolungarvík 1909, en það var byggt í Aðalvík þá. Þeir hafa kannski ruglast á víkum. 1920 var það hús svo rifið, timbrið flutt til Bolungarvíkur og þar byggt annað hús. Þetta er ekki sama hús og var í Aðalvík.“

Valdimar hafði ekki hugmynd um að húsið hafi verið friðað þegar hann ákvað að skemma það, en segir jafnframt húsið vera friðað á röngum forsendum. „Ef það er friðað út frá hundrað ára reglum er það bara lygi. Auk þess var búið að byggja oftar en einu sinni við húsið.“

Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið. …
Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið. Valdimar hafði ekki hugmynd um að það væri friðað þegar hann ákvað að skemma húsið. Af vef Bæjarins besta
Aðalstræti 16 í Bolungarvík
Aðalstræti 16 í Bolungarvík Af vef Bæjarins besta
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert