Ummæli ómerkt sem ósannaðar aðdróttanir

Gunnar Þorsteinsson við aðalmeðferð málsins í maí.
Gunnar Þorsteinsson við aðalmeðferð málsins í maí. mbl.is/Þórður

Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn, krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að 21 ummæli yrði dæmt dauð og ómerkt í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn tveimur konum, Vefpressunni og fyrrverandi ritstjóra Pressunnar. Héraðsdómur ómerkti fimm þeirra sem ósannaðar aðdróttanir og óviðkvæmileg ummæli.

Málið höfðaði Gunn­ar á hend­ur Ástu Sig­ríði H. Knúts­dótt­ur, Sesselju Engil­ráð Barðdal, Stein­grími Sæv­ari Ólafs­syni, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar vegna frétta­flutn­ings af nokkr­um kon­um sem sökuðu Gunn­ar um kyn­ferðis­brot. Ágreiningur málsins sneri að því hvort ómerkja bæri ummælin sem ærumeiðandi.

Þá krafðist Gunn­ar 15 millj­óna króna í skaðabæt­ur, fimm millj­óna frá hverj­um aðila fyr­ir sig, og af­sök­un­ar­beiðni.  

Dagana 23.-30. nóvember 2010 og 23. júlí 2011 birtust alls tíu greinar á vefmiðlinum pressan.is, sem Vefpressan gefur út og Steingrímur, sem var þá ritstjóri fyrir, þar sem fram koma ummæli sem Gunnar taldi ærumeiðandi í sinn garð.

Alvarlegustu ummælin ómerkt

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars, segir niðurstöðuna vera mikinn sigur fyrir sinn skjólstæðing. Hann bendir á, að héraðsdómur hafi ómerkt ummæli þar sem fullyrt sé að um refsiverða háttsemi Gunnars hafi verið að ræða. Þetta séu alvarlegustu ummælin og ástæða málsóknarinnar.

Hvað varðar ummælin, þá segir í niðurstöðu héraðsdóms „að ómerkja beri sem ósannaðar aðdróttanir og óviðkvæmileg þau ummæli sem getið er um í kröfugerð stefnanda, sbr. lið nr. 3.e, þar sem segir: „... gegn þeirri refsiverðu háttsemi sem Gunnar hefur gerst sekur um ...“, en einnig þau ummæli í kröfuliðum nr. 4.a-4.c, þar sem segir: 4.a, „Talskona kvenna veit um 16 fórnarlömb: Vísbendingum rignir inn – Spannar 25 ára tímabil“, 4.b, „Talskona kvenna sem saka Gunnar Þorsteinsson í Krossinum um kynferðislegt ofbeldi segist vita samtals um 16 fórnarlömb. Í samtali við Pressuna segist hún hafa fengið vísbendingar frá konum sem saka Gunnar um kynferðislegt ofbeldi yfir 25 ára tímabil“, og 4.c, „Í samtali við Pressuna segir Ásta að fyrir utan þær fimm konur sem hún heldur utan um viti hún um 9 aðrar sem saka Gunnar um kynferðisofbeldi“, og enn fremur ummæli samkvæmt kröfulið 7.a, „Vitni að meintri kynferðislegri áreitni Gunnars...“.

Þá var það niðurstaða dómsins, að sýkna bæri Steingrím, Ástu og Sesselju af öllum öðrum kröfum Gunnars um ómerkingu ummæla í málinu. Þá var kröfu Gunnars um miskabætur vísað frá dómi og með hliðsjón af þessum lyktum málsins þótti rétt að málskostnaður félli niður. 

Einar Hugi segir að það sé vissulega óvænt að miskabótakröfunni hafi verið vísað frá dómi enda hafi hún verið sett upp með sama hætti og í öðrum málum sem hafi fengið efnislega niðurstöðu í Hæstarétti. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is