Lýsa yfir sigri gagnvart Gunnari

Frá dómsuppsögunni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá hægri: Ásta Sigríður H. …
Frá dómsuppsögunni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá hægri: Ásta Sigríður H. Knútsdóttir, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögmaður Ástu og Sesselju, og Bjarki H. Diego, lögmaður Steingríms Sævars Ólafssonar. mbl.is/Þórður

Konurnar sem Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn, höfðaði meiðyrðamál gegn vegna ummæla í Pressunni, segjast sjá sig knúnar til að varpa skýrari ljósi á niðurstöðu Héraðsdóms og undirstrika að aðeins 5 ummæli af 21 sem Gunnar krafðist ómerkingar á voru dæmd ómerk.

Sá ómerkingardómur byggðist fyrst og fremst á lagatæknilegum forsendum. Einungis eitt þessara 5 ummæla taldist á ábyrgð kvennanna.

Trúverðug frásögn um kynferðisbrot

Í yfirlýsingu, sem þær Ásta S.H. Knútsdóttir og Sesselja E. Barðdal, „talskonur“ kvennanna sjö, sendu frá sér í kvöld er ítrekað að öll önnur ummæli stóðust fyrir dómi og var það mat dómsins að frásagnir kvennanna sem báru vitni um kynferðisbrot Gunnars væru trúverðugar.

„Í okkar augum skiptir það mestu máli og því lýsum við yfir sigri í þessu máli,“ segja þær Ásta og Sesselja. Kröfu Gunnars um miskabætur var vísað frá, en málsaðilum gert að greiða sinn lögfræðikostnað. Því má bæta við að samkvæmt heimildum mbl.is hafa hvorki Gunnar né konurnar ákveðið að áfrýja dómnum.

Þess virði þrátt fyrir átök og erfiða tíma

Við fögnum niðurstöðu Héraðsdóms og teljum dóminn hafa fordæmisgildi fyrir mál af þessu tagi. Að sama skapi erum við uggandi yfir því að hægt sé að ógna þolendum kynferðisbrota og/eða stuðningsfólki þeirra með lögsókn fyrir að segja sögur sínar opinberlega,“ segir í yfirlýsingu kvennanna.

Þær benda á að svipuð mál hafi komið upp erlendis, þar sem tilgangur málsmeðferðar sé fyrst og fremst að skapa ótta hjá þolendum og/eða stuðningsfólki við málskostnað, vinnutap, umtal og annað sem valdið gæti miska.

Þrátt fyrir átök, erfiða tíma og óumflýjanlegan lögfræðikostnað í máli þessu var segja þær að  vegferðin hafi verið þess virði fyrir konurnar sjö.

Með kjarki sínum og hugrekki stuðluðu þær að opnari umræðu um kynferðisbrot og lögðu þannig sitt af mörkum við að gera þjóðfélagið okkar betra og öruggara dætrum okkar og sonum til handa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert