Upplýsi viðskiptavini um ástand mála

Jökulsá á Sólheimasandi
Jökulsá á Sólheimasandi mbl.is/Brynjar Gauti

Áfram er unnið á óvissustigi vegna Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi. Mælingar síðasta sólarhring hafa sýnt að vatnshæð og rafleiðni fara ennþá minnkandi. Sérfræðingar á vegum Veðurstofunnar hafa greint fyrstu niðurstöður gasmælinga við Jökulsá á Sólheimasandi og upptök hennar.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast áfram til þess við ferðaþjónustufyrirtæki, fulltrúa annarra atvinnustarfsemi,  ferðamenn og almenning á svæðinu að fara eftir ráðleggingum Veðurstofunnar og Vinnueftirlitsins á meðan óvissustig er í gildi vegna flóðahættu og hættu sem getur stafað af eitruðum gastegundum. Ferðaþjónustufyrirtæki eru sérstaklega hvött til þess að upplýsa viðskiptavini sína um ástand mála.

Tilkynning frá Veðurstofunni:

Upplýsingar um gasmengun við Sólheimajökul.

Síðla dags 9. júlí mældu starfsmenn Veðurstofunnar og Háskólans í Palermó styrk lofttegunda sem nú losna úr hlaupvatni við jaðar Sólheimajökuls. Notast var við síritandi stafrænan mæli auk viðeigandi öryggisbúnaðar.

Við vestanverðan sporð Sólheimajökuls, þar sem hlaupvatnið kemur fram, mældist styrkur brennisteinsvetnis (H2S) 114 ppm og styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) 12 ppm (ppm=milljónustu hlutar). Samfelld skráning aðfaranótt 10. júlí sýndi að styrkur koltvísýrlings (CO2) væri þá 11,000 ppm, styrkur H2S hafði hækkað í 80 ppm en styrkur SO2 var kominn niður í 0.3 ppm. Þess skal getið að styrkur þessara lofttegunda getur mælst mjög breytilegur eftir vindátt og vindstyrk.

Hæstu H2S gildin eru yfir hættumörkum sem skilgreind eru þannig að heilsu fólks er hætta búin ef það andar að sér þessum styrk lofttegundarinnar í 15 mínútur. Ef engar varnir eru notaðar er því veruleg hætta á augnskaða og öndunarerfiðleikum. Hæsta mæligildið á H2S er meir en 11-falt yfir ofangreindum 15 mínútna hættumörkum.

Enn stafar því .veruleg hætta af lofttegundum við sporð Sólheimajökuls og há H2S gildi (7 ppm) mældust einnig yfir Jökulsá við brúnna á Sólheimasandi.

Ferðafólki og fararstjórum er því ráðlagt að halda sig í a.m.k. 100 m fjarlægð frá Jökulsá á Sólheimasandi og eindregið er varað við því að nálgast uppstreymisstaðina því eitraðar lofttegundir gætu valdið fólki heilsutjóni og jafnvel dauða.


Tilkynning frá Vinnueftirlitinu:

Vinnueftirlitið hefur farið fram á það við lögregluyfirvöld að beina öllum starfsmönnum fyrirtækja frá hættusvæðum.
Þetta á m.a. við um starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja og annarra er telja sig eiga erindi á staðinn. Starfsmenn sem vinna við mælingar og athuganir á svæðinu skulu nota viðeigandi öryggisbúnað og hafa samband við lögreglu áður en þeir fara á svæðið og þegar þeir yfirgefa það.

Fari styrkur efna í andrúmslofti, þar sem vinna fer fram, yfir mengunamörk er vinna ekki heimil. 
Þegar virkni eykst þarf að fylgjast vel með styrk efna í umhverfi og virða hættumörk þeirra. Hættusvæði geta meðal annars náð yfir ár og nágrenni þeirra. Einnig þarf sérstaklega að varast aukinn styrk skaðlegra gastegunda í nágrenni við fossa, flúðir og dældir í landslaginu.
Hætta af völdum skyndilegra flóða getur náð yfir stórt svæði og er því öllum ráðlagt að halda sig í öruggri fjarlægð.

Áhrif nokkurra efna og mengunarmörk þeirra:
Mengunarmörk eru hæsta leyfilega meðaltalsmengun (tímavegið meðaltal) í andrúmslofti starfsmanna við 8 klst., eða 15 mínútna viðveru.
Mengunarmörk eru gefin upp í ppm (parts per million) þar sem 10.000 ppm er jafngilt 1%, einnig er miðað við milligrömm efnis í hverjum rúmmetra af lofti.

Brennisteinsvetni, (H2S)
8 klst mengunarmörk eru 5 ppm (7mg/m3). 15 mínútna mengunarmörk eru 10 ppm (14mg/m3)
Eitrunareinkenni eru m.a:
• Við 20-50 ppm má reikna með ógleði og lyktarskyn slævist.
• Við 100-200 ppm er bráðahættuástand þá hverfur lyktarskyn og erting öndunarfæra vex.
• Við 250-500 ppm verða menn sljóir. Meðvitundarmissir verður við 500 ppm.
• Við 1000 ppm verður öndunarlömun (banvænt).

Brennisteinstvíildi (SO2) 
Mengunarmörkin eru 0,5 ppm (1,3 mg/m3) fyrir 8 klst., en 1ppm (2,6 mg/m3) fyrir 15 mín.
Við 100 ppm styrk er efnið lífshættulegt.

Koltvísýringur (CO2)
Koltvísýringur lækkar súrefnisinnihald lofts sem hann blandast og veldur þannig súrefnisskorti, en getur einnig valdið eitrunareinkennum við háan styrk.
Mengunarmörkin eru 5.000 ppm (4.500 mg/m3) fyrir 8 klst., en 10.000 ppm (9.000 mg/m3) fyrir 15 mín.

Koleinsýringur (CO).
Mengunarmörkin eru 25 ppm (29mg/m3) fyrir 8 klst., en 50 ppm (58 mg/m3) fyrir 15 mín.
• Við 100 ppm er CO hættulegt heilsu.
• Við 800 ppm, sljóleiki, verkir, dofi.
• Við 1.600 ppm (0,16%), höfuðverkur, sljóleiki, dauði innan 2 klst.
Brennisteinssýra (H2SO4)
Brennisteinssýra er ætandi á slímhúð öndunarfæra, munns, augna og einnig húðar í nægjanlegum styrk.
Mengunarmörkin eru 1mg/m3 fyrir 8 klst., en 2 mg/m3 fyrir 15 mín.
Mengunarmörkin fyrir úða sem kemst niður í barka eru 0,05mg/m3 fyrir 8 klst., en 0,1 mg/m3 fyrir 15 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert