ESB stækki ekki næstu fimm árin

Fleiri ríki fá ekki inngöngu í Evrópusambandið næstu fimm árin. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu sem Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, flutti í dag í Evrópuþinginu þar sem hann lýsti fyrirhuguðum áherslum í forsetatíð sinni. Stuttu síðar greiddu þingmenn atkvæði um tilnefningu hans og hlaut hann stuðning 422 þingmanna af 729. Juncker sagði að gera þyrfti hlé á stækkun Evrópusambandsins og nota tímann til þess að styrkja samstarf þeirra 28 ríkja sem þegar mynduðu sambandið.

„Þegar kemur að stækkun Evrópusambandsins geri ég mér fyllilega grein fyrir því að hún hefur falið í sér sögulegan árangur sem fært hefur heimsálfunni okkar frið og stöðugleika. Hins vegar þarf sambandið og borgarar þess að melta aðild 13 ríkja á síðustu tíu árum. Evrópusambandið þarf að gera hlé á frekari stækkun til þess að við getum styrkt í sessi það sem náðst hefur fram á milli 28 ríkja sambandsins. Það er ástæða þess að í tíð minni sem forseti framkvæmdastjórnarinnar verður yfirstandandi viðræðum haldið áfram og þurfa ríkin á vestanverðum Balkanskaga sérstaklega að taka mið af áherslum Evrópusambandsins, en engin frekari stækkun sambandsins mun eiga sér stað næstu fimm árin,“ sagði Juncker í ræðunni.

„Það er rangt að loka dyrunum á ný aðildarríki að Evrópusambandinu næstu fimm árin. Við ættum að hafa opnar dyr fyrir Ísland ef það skiptir um skoðun aftur,“ ritaði Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, á Twitter-síðu sína í dag. Kjörtímabil Junckers er fimm ár og lýkur haustið 2019.

Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert