Óttast offramboð á veturna

Vegna mikillar aukningar í framboði gistirýmis í landinu munu hótelin …
Vegna mikillar aukningar í framboði gistirýmis í landinu munu hótelin slást um viðskiptavini. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun hótelherbergja í miðborg Reykjavíkur á næstu árum mun auka samkeppnina um viðskiptavini verulega og gæti nýtingin yfir veturinn því minnkað. Það gæti aftur leitt til tapreksturs þá mánuði þegar eftirspurnin er minnst.

Þetta er mat Bergs Rósinkranz, eiganda Hótels Fróns á Laugavegi 22a í Reykjavík, sem rifjar upp rólega vetrarmánuði framan af öldinni.

Veturnir hafa stórbatnað

„Nýtingin hjá okkur yfir sumarið er mjög áþekk og hún var. Veturnir hafa hins vegar stórbatnað. Áður var vertíðin hjá okkur búin um miðjan september en nú lýkur henni ekki fyrr en undir miðjan nóvember. Því má segja að rólegi tíminn hjá okkur standi yfir frá miðjum nóvember og út janúar. Þeir mánuðir eru enn dálítið rólegir,“ segir Bergur.

„Áður var hluti af hótelinu í langtímaleigu á veturna. Nú þarf þess ekki. Við vorum til dæmis með erlenda prófessora og aðra langtímagesti yfir veturinn til þess að vera ekki með hálftómt hótelið á veturna.

Þetta hefur breyst mikið síðustu árin en mest síðustu fjögur árin. Framboðið af hótelum mun aukast mikið á næstu misserum. Framboðsaukning liggur fyrir. Ef það verður ekki þeim mun meiri eftirspurn á veturna en er nú þurfum við að berjast um viðskiptavinina. Þá þurfum við að lækka verð og þá bera veturnir sig ekki. Ég hef mestar áhyggjur af því að veturinn gæti þynnst út aftur,“ segir Bergur um hugsanlega þróun á markaði.

„Það er umhugsunarefni fyrir lánastofnanir að lána ekki of mikið í þessa grein á stuttum tíma.“

Fimmföldun hótelherbergja

Bergur segir að ef spár um mikla fjölgun ferðamanna á næstu árum rætast muni þurfa að stórauka framboð af afþreyingu í miðborg Reykjavíkur. Ekki sé nóg að bjóða upp á veitingastaði og verslanir sem selja minjagripavörur.

„Vinsælustu ferðamannastaðirnir úti á landi eru orðnir þéttsetnir. Ef það á að auka gistirými í miðborginni um 80% þarf að taka vel til hendinni og byggja upp innviði.

Hótel Frón var opnað með 20 herbergjum árið 1998 og segir Bergur aðspurður að samkeppnisaðilar hafi þá verið með úrtölur. Hótelið hefur síðan vaxið ár frá ári og er nú með fimmfalt fleiri herbergjum en í upphafi. Starfsmenn voru fimm í byrjun en eru nú 21. Frekari stækkun er ekki fyrirhuguð að sinni.

„Miðbærinn þarf að stækka til að geta tekið á móti fleiri ferðamönnum, flýta þarf uppbygginu á hafnarsvæðinu og á Granda. Verslunin þarf að vera fjölbreyttari til að mæta þörfum mismunandi markhópa og það má ekki gleymast að uppbyggingin þarf að vera í íslenskum anda,“ segir Bergur.

Sjá frekari umfjöllun um aukningu gistirýmis í landinu í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina