Sigríður lögreglustjóri höfuðborgarsvæðis

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir verður fyrsta konan sem gegnir embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Embætti lögreglustjóra á landinu verða 9 í stað 15 með nýjum lögum um lögregluumdæmi. Ný lögreglulið njóta styrks af stærri liðsheild, færri stjórnendum og hagkvæmari rekstri, segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, hefur verið ráðinn sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur í embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu; það þýðir að hún flyst frá embættinu á Suðurnesjum þar sem hún hefur verið frá árinu 2009. Hún var aðstoðarríkislögreglustjóri á árunum 2007–2008, sýslumaður á Ísafirði 2002–2006 og þar áður skattstjóri Vestfjarðaumdæmis.

Vilji Alþingis og lögreglu að efla hlut kvenna

Sigríður Björk er fyrsta konan sem gegnir embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

„Sigríður er að taka við keflinu af mjög góðum manni sem sinnt hefur verkinu með miklum sóma og það er mikill fengur fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að fá hana hingað. Það hefur verið vilji Alþingis og vilji lögreglunnar að efla hlut kvenna í þessum mikilvægu störfum og þess vegna eru þetta mjög ánægjuleg tímamót,“ sagði Hanna Birna í samtali við mbl.

Þá hefur ráðherra í kjölfar niðurstöðu sérstakrar valnefndar tilkynnt um skipan í embætti lögreglustjóra í nýjum umdæmum. Samkvæmt nýjum lögum verður lögregluumdæmum fækkað úr 15 í níu og mun breytingin taka gildi um næstu áramót.

„Við erum núna að fylgja eftir lögunum sem voru samþykkt á þingi í vor og erum að fækka embættunum. Mér finnst hafa tekist mjög vel til með að skipa fólk til þessara verka. Þeir sem voru í þessum störfum höfðu forgang og ég held að liðið sem við erum að fá til að leiða þessar breytingar, bæði hjá sýslumönnum og lögreglustjórunum, sé mjög góður hópur, enda bíða þeirra mikil og stór verkefni,“ segir Hanna Birna.

Skipan í embætti lögreglustjóra verður sem hér segir:

  • Lögreglustjóri á Suðurlandi: Kjartan Þorkelsson.
  • Lögreglustjóri á Austurlandi: Inger L. Jónsdóttir.
  • Lögreglustjóri á Norðurlandi eystra: Halla Bergþóra Björnsdóttir.
  • Lögreglustjóri á Norðurlandi vestra: Páll Björnsson.
  • Lögreglustjóri á Vesturlandi: Úlfar Lúðvíksson.
  • Lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu: Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
  • Lögreglustjóri á Suðurnesjum: Ólafur Helgi Kjartansson.

Tvö embætti lögreglustjóra verða auglýst á næstu dögum, embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum.

Aðspurð hvort til greina hafi komið að auglýsa fleiri stöður segir Hanna Birna að ráðningarnar hafi þurft að byggja á lögum sem geri ráð fyrir að þeir sem áður voru í störfunum hafi forgang. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir í tilkynningu að efling löggæslunnar hafi verið eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar en með þessum breytingum verða til færri en um leið öflugri embætti. „Minni yfirbygging, fjölbreyttur og sterkur hópur löggæslufólks, tækniframfarir og bættur búnaður lögreglu stuðlar að því að starfsemi lögreglunnar innan umdæma verði skipulögð með markvissari hætti. Ég býð nýskipaða lögreglustjóra velkomna til starfa og er þess fullviss að þeir muni leggja sitt af mörkum við að tryggja öryggi almennings og öfluga þjónustu á hverjum stað.“

Ráðherra ákveður að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra og aðra hagsmunaaðila hvar í umdæminu aðalstöð lögreglustjóra verður. Það verður hlutverk lögreglustjóra að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og jafnframt að ákveða hvaða starfslið hefur aðsetur á aðalstöð og öðrum varðstöðvum. Nú þegar hafa verið birt til kynningar og samráðs umræðuskjöl um umdæmamörk og starfsstöðvar nýrra embætta og hafa ráðuneytinu borist fjölmargar ábendingar og athugasemdir sem farið verður yfir með nýskipuðum lögreglustjórum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert