Styðja hvert við annað í sorginni

Gísli Kr. Björnsson ásamt eldri börnum sínum tveimur.
Gísli Kr. Björnsson ásamt eldri börnum sínum tveimur. Mynd/Gísli Kristbjörn

„Við fundum öll þörfina fyrir að samsama okkur með fólki sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu. Að deila lífsreynslu okkar, vonum og styrk,“ segir Gísli Kr. Björnsson, sem missti eiginkonu sína, Hönnu Lilju Valsdóttur, árið 2011 þegar hún var komin 33 vikur á leið með tvíburadætur þeirra.

Hanna Lilja lést 14. ágúst 2011 vegna blóðtappa í lunga. Hún átti þá von á tvíburadætrum og um mánuð eftir af meðgöngunni. Tvíburasystrunum var bjargað og voru þær skírðar Valgerður Lilja og Sigríður Hanna. Valgerður Lilja lést vikugömul en Sigríður Hanna er nú tæplega þriggja ára gömul og dafnar vel að sögn Gísla. „Henni gengur mjög vel og er bara kraftaverk,“ segir hann.

Stofnaði félag fyrir fólk sem hefur misst maka

Í kringum áramótin átti Gísli þátt í að stofna félagið Ljónshjarta, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur misst maka og börn þeirra sem hafa misst foreldri. Félagið segir hann hugsað sem stuðningshóp, þannig að fólk sem er í þeim sporum, að hafa misst maka, geti leitað til þeirra frá fyrstu stundu. Gísli stefnir á að hlaupa 10 km Í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar félaginu.

„Starfsemin fer í gang með haustinu og verður fyrst og fremst í formi þess að fólk getur leitað til okkar og deilt þessari reynslu,“ segir hann. Þá mun félagið einnig standa fyrir fræðslu og fyrirlestrum þar sem sálfræðingar, prestar og sáluhjálparar koma og ræða við þá sem sækja fundi. „Þetta eru sérfræðingar í úrvinnslunni og vinnan mun byggjast á samstarfi þessara tveggja hópa,“ segir Gísli.

Styrkja einstaklinginn fyrir börnin

Hann segir það hafa hjálpað sér gífurlega í sorgarferlinu að tala við aðra sem gengið höfðu í gegnum svipaða raun. „Ég var svo lánsamur í mínu ferli að maður sem hafði samband við mig, prestur, kynnti mig fyrir öðrum manni, sem báðir höfðu þeir misst konurnar sínar, annar úr krabbameini og hinn svona skyndilega eins og ég. Þetta hjálpaði mér að ná fótfestu og ég vissi þá nokkurn veginn við hverju mætti búast. Það er svo mikilvægt jafnvel þótt aldrei sé hægt að kortleggja sorgina alveg.“

Gísli segir ferlið aldrei koma til með að taka enda að því leyti að hann lifi alltaf með þessu. „En tilgangurinn er að styrkja einstaklinginn í þessari göngu og ekki síst svo hann geti verið sterkari fyrir börnin sín,“ segir hann. „Allir foreldrar vilja vera sterkir fyrir börnin sín, hvort sem þeir búa saman, eru einstæðir eða hafa misst maka sinn. Það er bara í foreldraeðlinu.“

Hann segir að vel hafi gengið hjá fjölskyldu hans þótt vissulega komi sorgartímabil. „Okkur hefur gengið vonum framar miðað við hvernig maður horfði á framtíðina á sínum tíma. Við erum öll á ágætissiglingu í lífinu og allir braggast vel,“ segir hann.

Hér er hægt að heita á Gísla í Reykjavíkurmaraþoninu.

Gísli Kr. Björnsson
Gísli Kr. Björnsson Mynd/Gísli Kristbjörn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert