„Hélt ég gæti ekki gengið aftur“

Annie Mist.
Annie Mist. Mynd frá Reebok

„Þetta hefur verið upp og niður í langan tíma,“ segir Annie Mist Þórisdóttir, sem var í skýjunum þegar blaðamaður talaði við hana í kvöld. Hún táraðist þegar hún ræddi við blaðamenn í gær.

Annie varð í öðru sæti á Crossfitleikunum, sem lauk í gær.  „Ég hef haft gott fólk í kringum mig til að aðstoða mig,“ segir hún, en hún meiddist illa í nóvember árið 2012.

„Ég hef alltaf sagt að það hafi verið markmiðið hjá mér að komast aftur og helst vinna leikana. Það var erfitt fyrsta árið að trúa því að ég myndi nokkurn tíma komast þangað aftur, bara út af því að það tók lengri tíma fyrir mig að jafna mig af meiðslunum en ég hafði búist við,“ segir Annie Mist.

„Svo meiddist ég aftur í mars, fimm mánuðum eftir að ég meiddist upphaflega. Þá kom bakslag.“ Við það læddist sú hugsun að hjá henni að crossfit væri kannski eitthvað sem hún gæti ekki stundað. „Ég hélt að ég myndi bara meiðast aftur og aftur. Ég þurfti bara að taka þetta hægar, einn dag í einu.“

Hún segir að á tímabili hafi hún farið vikulega til London til að komast undir hendur sjúkraþjálfara, þar sem ekki var hægt að finna þá aðstoð sem hana vantaði hér á landi. „En þetta kom mér á endanum hingað,“ segir Annie Mist, sem er stödd í Bandaríkjunum þar sem leikarnir voru haldnir. 

„Aðeins of áköf“

Annie segir eigin ákafa um að kenna að hún skyldi meiðast á sínum tíma.

„Ég hef alltaf verið aðeins viðkvæm í bakinu frá því ég hætti í fimleikum. Ég var bara aðeins of áköf á æfingu. Ég var að bæta styrkinn hjá mér í hnébeygjum og langaði svo að bæta mig í réttstöðulyftu í leiðinni. Þannig að beint á eftir fer ég í réttstöðulyftuna án þess að hita upp. Ég var bara aðeins of gráðug.

Ég hugsaði ekki um tæknina. Það olli því að diskur í bakinu á mér færðist út. Mér tókst að koma mér upp á baðherbergi á æfingastöðinni. Mig langaði ekki að sýna neinum að neitt hefði gerst, ég neitaði að trúa því. Svo allt í einu datt ég bara niður á gólfið og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera.

Það endaði með því að ég hringdi í panik í foreldra mína, sem hringdu á sjúkrabíl. Ég fékk strax doða niður í fæturna. Fyrsta hugsun var því að ég myndi vonandi geta gengið aftur. Síðan vonaðist ég til að geta æft aftur og loks að ég gæti keppt aftur. Loksins fór það þannig að ég gat náð mínum árangri aftur,“ segir Annie Mist.

Harðnandi keppni

Annie Mist segir að Crossfitleikarnir séu greinilega að verða sterkari en áður. „Ég er búin að vera að berjast við að komast í sama form og ég var í á meðan hinar stelpurnar hafa bætt sig. Ég hef getað unnið í veikleikum hjá mér, sérstaklega efri búknum, sem er jákvætt. Keppnin var mjög hörð í ár og ég er auðvitað ekki ánægð með allt hjá mér.

Það sem var erfiðast var 3.000 metra róður, 300 tvöföld sipp og 5 kílómetra hlaup. Maður var úti í sólinni allan tímann og það var yfir 30 gráðu hiti, og ég bara ofhitnaði. Ég var þriðja að klára sippið en þegar ég byrjaði að hlaupa lenti ég á vegg. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, ég átti bara erfitt með að hreyfa mig. Það fór hvað mest úrskeiðis hjá mér.“

Hún segist samt virkilega ánægð með hvernig henni líður. „Ég er betri í líkamanum núna en nokkurn tímann eftir meiðslin. Líkaminn þolir þetta virkilega vel, ég finn ekkert fyrir bakinu og líður vel.“

Hún vill ekki gefa út hvort hún ætli á leikana að ári. „Eins og mér líður núna þá naut ég þess virkilega að vera með, mun meira en til dæmis 2011 og 2012. Það var mikil pressa og álag á mig, sérstaklega 2012.

Í fyrra áttaði ég mig á því að 2013 var virkilega erfitt ár, að þurfa að horfa á að utan og finna fyrir öllum þessum sársauka. Þá áttaði ég mig á því að mig langaði ekki bara að vinna, heldur líka að komast á leikana og njóta þess. Ég hef svo ofboðslega gaman af því sem ég fæ að gera,“ segir Annie Mist.

Annie tárvot á blaðamannafundi

Annie Mist varð önnur á leikunum. Í fyrsta sæti varð …
Annie Mist varð önnur á leikunum. Í fyrsta sæti varð Camille Leblanc-Bazinet frá Kanada og í þriðja sæti varð Julie Foucher frá Bandaríkjunum. - Mynd frá Reebok Mynd frá Reebok
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert