National Geographic notar íslenska mynd á forsíðu

Ljósin á myndinni speglast og mynda andlit - Hér má …
Ljósin á myndinni speglast og mynda andlit - Hér má sjá ljósmynd Kristínar sem hefur fengið glæsilegar viðtökur vestanhafs. Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir, ljósmyndari frá Borgarfirði, er einn þeirra ljósmyndara sem fékk mynd eftir sig birta á stærðarinnar skjá á skýjakljúf í New York í síðustu viku. National Geographic tímaritið hefur keypt sömu mynd af Kristínu og hyggst nota hana sem forsíðumynd á nýa bók sem verður gefin út bráðlega.

Á skýjakljúf, bol og á forsíðu bókar

„Ljósin á myndinni speglast og mynda eiginlega andlit,“ segir Kristín í samtali við mbl.is, um mynd sína sem er tekin í Skorradal. „Maður hefur mikið landslag til að leika sér að hérna í sveitinni.“ Myndin var einnig valin til prentunar á boli í tengslum við birtingu hennar í New York. Þá mun hún prýða forsíðu nýrrar ljósmyndasafnbókar sem National Geographic leggur drög að um þessar mundir, en tímaritið hefur áður birt myndir eftir Kristínu á vef sínum.

Listasamtökin See.me standa bakvið að birta myndina á skýjakljúfnum, sem er staðsettur á Times Square torginu, en þúsundir listamanna víðsvegar um heiminn eru meðlimir í þeim. Þá þakti ljósmyndin Eldiviður eftir Jóhann Smára Karlsson gervalla bygginguna á sama viðburði. 

Kristín er atvinnuljósmyndari og er búsett í Skorradal. Hún byrjaði að taka ljósmyndir uppúr 2008 og er menntuð í ljósmyndun hjá Tækniskólanum. Hún telur ljósmyndun oft ranglega flokkaða í hugum fólks, en hún er oft álitin vera iðngrein frekar en myndlistarmiðill.

Á mörkum iðnaðar og myndlistar

„Það er dagamunur á því hvað manni finnst. Mér finnst ljósmyndun vera list en svo lærir maður hana sem einhverja iðngrein. Ég útskrifaðist til dæmis sem „sveinn“ úr Tækniskólanum. Þetta er pínu á vitleysum stað.“

Það fari þó eftir verkefninu sem unnið er að hverju sinni. „Nú bý ég uppí sveit og tek að mér allskonar verkefni. Þegar maður er fenginn til að mynda einhverjar bílskúrshurðir eða vinna álíka myndir finnst manni kannski einsog maður sé hálfgerður iðnaðarmaður. En þegar maður er að leika sér að landslaginu og fær meira frelsi er maður að búa til list.“

Skessuhorn - Þessi mynd var valin til birtingar á vef …
Skessuhorn - Þessi mynd var valin til birtingar á vef National Geographic Kristín Jónsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert