Geir Haarde skipaður sendiherra

Geir Haarde
Geir Haarde

Utanríkisráðherra skipaði í dag þá Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra, og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann og fyrrverandi formann utanríkismálanefndar, sendiherra í utanríkisþjónustunni.

Skipunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2015.

Þetta kemur fram í tilkynningu Utanríkisráðuneytisins frá því í kvöld.

Geir H. Haarde sat á Alþingi í um tuttugu ár þar sem han gegndi lengst af starfi fjármálaráðherra, á árunum 1998 til 2005. Þá var hann utanríkisráðherra 2005 til 2006 og forsætisráðherra 2006 til 2009. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1999 til 2005 og formaður hans frá 2005 til ársins 2009 þegar hann lét af stjórnmálastörfum.

Árni Þór Sigurðsson hefur setið á Alþingi frá árinu 2007 fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Hann var starfandi formaður þingflokks VG 2010 til 2011 og formaður þingflokksins árið 2011. 

Ekki er ljóst hvar þeir munu gegna störfum en að sögn Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra er ekki heimilt að gefa það upp áður en gistiríkið hefur samþykkt tilnefninguna. Samkvæmt heimildum mbl fer Geir þó að líkum til Washington þar sem hann mun taka við starfi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert