Fínasta veður um verslunarmannahelgina

Landeyjarhöfn fyrir þjóðhátíð
Landeyjarhöfn fyrir þjóðhátíð Árni Sæberg

Gera má ráð fyrir að fjölmargir Íslendingar verði á farandfæti um verslunarmannahelgina og veðurspáin þeim ofarlega í huga. Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi má búast við hinu fínasta veðri um land allt.

Fyrir þá sem hyggjast elta sólina bendir veðurfræðingur á að veðrið verði með svipuðu móti víðast hvar og hvorki megi búast við áberandi góðu né slæmu veðri í neinum landshluta. Hlýjast verður þó líklega á Vesturlandi þar sem Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fer meðal annars fram en kaldara verður fyrir norðan.

Búast má við einhverri vætu víðast hvar og léttum skúrum af og til. Að sögn veðurfræðings verður rigningin þó ekki slík að menn þurfi að hafa áhyggjur af því að tjaldinu rigni niður og má helst lýsa veðrinu sem ekta íslensku sumarveðri. Minnst verður úrkoman á sunnudag.

Nokkuð svalt verður í lofti og þá sérstaklega fyrir norðan en hitinn verður víðast hvar á bilinu 8 til 13 stig. Mildast verður í Vestmannaeyjum þar sem þjóðhátíð fer fram og verður hitinn á bilinu 10 til 15 stig.

mbl.is