Glaðlegt blak í Nauthólsvík

„Við töpuðum en þetta var alveg hrikalega skemmtilegt,“ segir Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar eftir blakleikinn á milli blakliðs Íþróttafélagsins Styrmis og borgarfulltrúa Reykjavíkur. „Ég var rosalega góð í upphituninni en sjálfstraustið dvínaði þegar keppnin hófst og alvaran tók við“ bætir hún við, aðspurð um eigin frammistöðu. Leikurinn var liður í dagskrá Hinsegin daga sem standa nú yfir. 

Hún segir að borgarfulltrúarnir hafi öll átt góða spretti í leiknum. „Við höfðum ólíka styrkleika og bættum hvert annað upp,“ segir Sóley.

 „Þetta gekk ljómandi vel. Æðisleg leið til þess að byrja hátíðina. Þetta verða góðir Hinsegin dagar.“

Auk Sóleyjar kepptu S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir. Þá voru líka í liðinu fulltrúar íþrótta- og tómstundaráðs, þau Þórgnýr Thoroddssen, Eva Einarsdóttir og Eva Baldursdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert