Klipptu á borða við Múlakvísl

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra klippti á borðann á brúnni yfir …
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra klippti á borðann á brúnni yfir Múlakvísl kl. 15 í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýja brúin yfir Múla­kvísl var form­lega opnuð nú síðdegis, þegar Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir inn­an­rík­is­ráðherra klippti á borða með aðstoð Hreins Har­alds­son­ar vega­mála­stjóra. Rúm þrjú ár eru nú liðin síðan gamla brúin, og þar með hringvegurinn, fóru í sundur í jökulhlaupi.

Hlaupið í Múla­kvísl var und­ir morg­un laug­ar­dag­inn 9. júlí 2011 og eyðilagði 130 m langa brú sem byggð var árið 1990. Sam­dæg­urs var haf­ist handa við und­ir­bún­ing að smíði bráðbrigðabrú­ar en Vega­gerðin á ávallt til reiðu efni í slík­ar brýr. Á sjö dög­um var byggð 156 m löng ein­breið bráðabrigðabrú. Opnað var fyr­ir um­ferð á há­degi laug­ar­dag­inn 16. júlí.

Nýja brú­in sem nú er tek­in í notk­un er 162 m löng eft­ir­spennt bita­brú í sex höf­um og 10 m að breidd. Nýr veg­ur er um 2,2 km að lengd og er breidd hans 8 m.

Brú­argólfið á nýju brúnni er 2 m hærra en var á eldri brú og lág­punkt­ar eru hafðir í veg­in­um sitt­hvoru meg­in brú­ar til þess að flóð af þeirri stærðargráðu sem varð í júlí 2011, taki ekki af brúna en rjúfi þess í stað veg­inn. Í aust­an­verðum far­veg­in­um ofan brú­ar voru byggðir um 5,6 km lang­ir varn­arg­arðar upp með ánni, þar af er 2,5 km ógrjótv­ar­inn bak­g­arður með 11 grjótvörðum leiðigörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er til­gang­ur þess­ara garða að beina ánni und­ir brúna og varna miklu jarðvegs­rofi. Auk þessa eru 2 grjótv­arðir varn­arg­arðar ofar til að verj­ast rofi á bakk­an­um sem er þar allt að 10 m hár og er ein­göngu úr vikri frá Kötlu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert