Mál Gammy sýnir að setja þarf lög

Gammy ásamt staðgöngumóður sinni.
Gammy ásamt staðgöngumóður sinni. AFP

Sagan af Gammy litla, drengnum með downs-heilkenni sem fæddur var af taílenskri staðgöngumóður, staðfestir mikilvægi þess að setja lagaramma og reglugerð um staðgöngumæðrun undir handleiðslu og eftirliti fagaðila sem tryggir hagsmuni allra. Þetta segir Staðganga, stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi, í fréttatilkynningu.

Félagið segir jafnframt að mikilvægt sé að para staðgöngumóður og verðandi foreldra á þann hátt að þau séu sammála í afstöðu sinni og skoðunum á þeim málum sem geta komið upp á meðgöngu. Telur félagið eftirfylgni ekki síður mikilvæga og að hún eigi að vera í höndum sérfræðinga og fagaðila.

Aðeins örfá alvarleg vandamál upp við staðgöngumæðrun á ári hverju, samkvæmt tilkynningunni. „Talið er að a.m.k. fjögur börn séu fædd af staðgöngumæðrum á hverjum degi í Bandaríkjunum einum og hefur staðgöngumæðrun verið leyfð með lögum í áratugi í sumum löndum með góðum árangri, bæði í velgjörð og hagnaðarskyni. Vönduð vinnubrögð með aðkomu og eftirliti sérfræðinga og fagaðila er mjög mikilvæg í því samhengi. Það er mikilvægt að öll ríki setji lög og reglugerðir um staðgöngumæðrun í sínu landi til að vera í stakk búin að takast á við þá þróun sem átt hefur sér stað í þessum málaflokki á undanförnum áratugum.“

Í ljósi þessa segist félagið faga þeirri vönduðu vinnu sem nú á sér stað við undirbúning lagafrumvarps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á Íslandi sem mun hafa hagsmuni barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra að leiðarljósi.

Heilbrigðisráðuneytið skipaði starfshóp um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni haustið 2012. Áætlað er að hann skili frumvarpi til ráðherra um áramótin.

Sjá umfjöllun mbl.is: 10-20 milljónir fyrir staðgöngumæðrun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert