Annie Mist grét aldrei

Annie Mist gat ekki gert eina hnébeygju án verkja átta vikum fyrir Heimsleikana í Crossfit. Foreldrar hennar, Þórir Magnússon og Agnes Viðarsdóttir, segja það hafa verið erfitt að horfa upp á dóttur sína niðurbrotna, líkamlega og andlega. Á meðfylgjandi myndskeiði er fylgst með þátttöku Anniar Mist á heimsleikunum í Los Angeles. 

Foreldrar hennar hafa alla tíð stutt hana og farið á þau mót sem hún hefur tekið þátt í.

Móðir hennar segir hafa verið erfitt að horfa upp á Annie Mist glíma við alvarleg meiðsli. „Annie hefur alltaf verið rosalega sterk og aldrei fundið til, þó hún hafi meitt sig hefur hún ekki einu sinni farið gráta. Þannig að vera með hana svona niðurbrotna, ekki aðeins líkamlega heldur einnig andlega, eins og hún var á tímabili, var rosalega erfitt. En við fórum aldrei í þann fasa að fara að vorkenna henni. Það hefði verið það versta sem við hefðum getað gert henni.“

Hún segir að þess í stað hafi þau stutt hana, líkt og þau hafi ávalt gert.

Foreldrarnir segjast hafa verið áhyggjufullir er Annie tók þátt í Evrópuleikunum. Þau vonuðu að hún væri ekki farin að keppa of snemma. „Ég hef aldrei verið jafn stressuð fyrir mót. Á miðvikudeginum fyrir þá keppni var hún að hugsa um að hætta við að keppa því hún var ekki farin að geta gert eina hnébeygju án verkja.“ Agnes segir þá helgi hafa verið erfiða. „Ég var hrædd um að hún myndi eyðileggja eitthvað.“

Átta vikum síðar voru heimsleikarnir í Los Angeles. „Við hugsuðum um hvernig hún myndi takast á við það, að geta kannski ekki unnið og vera aftar en hún fyrirfram ætlaði sér andlega.“

Við vitum öll hvernig þetta fór. Annie Mist landaði silfrinu. Að venju fagnaði hún árangrinum með því að fara á Cheese Cake Factory til að fá sér eitthvað gott að borða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert