„Ekki tilbúin að gefast upp“

„Ég held að þetta sé það mikið starf sem hefur verið unnið hérna að það sé mjög ósanngjarnt ef það er ekki metið meira en þetta,“ segir Jóhanna Þorvaldsdóttir, geitarræktandi á Háafelli í Hvítársíðu, sem sér fram á að missa bú sitt og eina geitarræktunarbú landsins á uppboði. Nú hefur 1,8 milljón hefur safnast til að bjarga búinu í söfnun á indiegogo en í gær hafði 1,4 milljón safnast.

Hjálpin berst þó úr óvæntri átt þar sem það voru aðilar búsettir erlendis sem áttu frumkvæðið að því að hefja söfnunina og geitarræktendur og dýravinir víða um heim hafa sýnt málinu mikinn áhuga að sögn Jóhönnu.

Áhuginn er sínu minni hjá íslenskum yfirvöldum, geitur séu í raun olnbogabarn í íslenskum búskap og þar eymi af gamaldags viðhorfum í garð skepnanna sem þótti ekki fínt að eiga á árum áður en Jóhanna segist fá um 80 þús. krónur í styrk á ári í starfið sem dugi lítið þegar skuldirnar nema um 40 milljónum. Þegar hún hóf geitarræktun árið 1999 voru einungis til 4 kollóttar geitur á landinu og genið var við það að deyja út en 95% kollóttra geita í stofninum eru í eigu Jóhönnu. 

Hún segist gera sér vonir um að geta hafið ostagerð og það sé ein af forsendunum fyrir því að gera starfið sjálfbært en ýmis formsatriði þurfi þó að klára auk þess að ráðast í fjárfestingar sem sé erfitt sökum erfiðrar skuldastöðu. 

Frétt mbl.is: Líf 400 geita í hættu

mbl.is