Spila tölvuleiki alla nóttina

„Það er allt að fyllast hérna og keppnirnar við það að hefjast,“ sagði Hrönn Róbertsdóttir, varaformaður Tvíundar, nemendafélags tölvunarfræðinema við Háskólann í Reykjavík við mbl.is fyrr í kvöld. Félagið stendur fyrir LAN-móti nú um helgina og eru um 280 einstaklingar eru skráðir til leiks. 

Keppnin fer fram í „Sólinni“ í HR og er þröngt á þingi. „Við leggjum undir okkur 2. og 3. hæðina og það er allt að fyllast hérna,“ segir Hrönn. Metskráning er í mótið í ár. Nú þegar eru fleiri skráðir til leiks heldur en mættu í fyrra, og enn er verið að taka á móti keppendum. 

Að sögn Hrannar er vinsælasti leikurinn League of Legends. „Counter Strike virðist svo vera að narta í hælana á honum, hann er líka frekar vinsæll.“ Auk þeirra tveggja er keppt í DOTA 2 og Hearthstone. 

Tölvuleikjamótið hefst svo í kvöld og stendur til klukkan 23. Þá er frjáls tími þar til klukkan 10 í fyrramálið þegar mótið hefst að nýju. 

Tíu stelpur á meðal keppenda

„Á nóttunni geta leikmennirnir gert það sem þeir vilja og svo eru mótin á daginn. Mótunum lýkur svo á sunnudaginn og verður verðlaunaafhending um klukkan 19 á sunnudagskvöldið,“ segir Hrönn. Keppt er í liðakeppnum, fimm í liði,  í öllum leikjunum nema í Hearthstone þar sem leikmenn keppa einn á móti einum. 

Keppendurnir eru á fjölbreyttum aldri að sögn Hrannar. „Flestir eru undir 18 ára aldri og alveg niður í 12 ára, sem er lágmarksaldurinn,“ segir Hrönn og giskar á að elsti keppandinn sé um þrítugt. 

Tíu stelpur eru skráðar til leiks á mótinu. „Það er sennilega framför frá því í fyrra, en auðvitað ekki nógu gott,“ segir Hrönn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert