„Ég verð alltaf klökk á einhverjum tímapunkti“

Dagur Örvarsson, Unnar Steinn Aðalbjargar Arnrúnarson, Esja Kristín Siggeirsdóttir og …
Dagur Örvarsson, Unnar Steinn Aðalbjargar Arnrúnarson, Esja Kristín Siggeirsdóttir og Vilhjálmur Gunnar Siggeirsson voru einstaklega glæsileg á Arnarhóli. Eva Björk

Tæplega 100 þúsund manns stóðu stoltir og fylgdust með Gleðigöngu Hinsegin daga í miðborginni í dag. Engan skyldi undra hvers vegna gangan er nefnd Gleðigangan en stemningin í bænum var frábær og meira að segja sólin kom út úr skápnum, eins og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri orðaði það svo skemmtilega

Gangan var í ár haldin í fimmtánda sinn en gengið var frá Vatnsmýrarvegi og að Arnarhóli. Þar var haldin svokölluð Regnbogaútihátíð með tónleikahaldi og annarri skemmtun og hóllinn var troðfullur af allskonar fólki sem fylgdist með.

Metþátttaka í Gleðigöngunni í ár

„Þetta gekk alveg eins og í sögu og hefði ekki getað gengið betur,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange formaður Hinsegin daga. Hún segir að metþátttaka hafi verið í göngunni. „Ég held að þetta hafi verið um 100 þúsund manns, það er ekki slæmt. Nánast þriðjungur þjóðarinnar!“

Hún segir gönguna hafa verið einstaklega fjölbreytta í ár. „Gaman að sjá nýja hópa koma inn eins og skátana, en þeir hafa ekki tekið þátt áður. Það hefur verið mikil umræða innan skátahreyfingarinnar erlendis þar sem fólki hefur verið meinaður aðgangur inn í skátana vegna kynhneigðar. Mér finnst mjög flott hjá íslensku skátunum að taka þátt og sýna fram á að þeir eru ekkert á þeim buxunum,“ segir Eva María.

„Svo var gaman að sjá borgarstjórann, hann gekk þarna með öðrum borgarfulltrúum og margir voru í skemmtilegum karakterum. Til dæmis lék Ilmur Kristjánsdóttir persónu úr þáttunum Stelpurnar sem var svolítil trukkalessa, það var mjög skemmtilegt,“ bætir Eva María við og hlær.

Amnesty International tók einnig þátt í göngunni og bentu á að staða réttindabaráttunnar er mislangt komin í heiminum. Annar vagn þakkaði Jóni Gnarr sérstaklega fyrir hans framlag undanfarin ár. „Hann hefur verið mikill baráttumaður fyrir Hinsegin daga og nýtti sína pólitísku krafta vel í þessari baráttu. Svo endaði gangan á hinum eina sanna Páli Óskari sem kom, sá og sigraði sem risastór svanur,“ segir Eva María, en óhætt er að segja að Palli hafi komið öllum í stuð þegar hann sveif framhjá.

„Ég verð alltaf klökk á einhverjum tímapunkti“

Systurnar Guðrún Steinunn og Bjargey Anna Guðbrandsdætur sátu í sólinni á Arnarhóli og fylgdust með hátíðarhöldunum. „Stemningin hér er frábær. Sól og blíða og þetta er alveg yndislegt,“ segir Guðrún. „Gleði og hamingja,“ skýtur Bjargey að. Þær eru fastagestir í Gleðigöngunni og hefur Guðrún mætt á hverju ári síðan 2006. „Ég verð alltaf klökk á einhverjum tímapunkti,“ segir Bjargey. 

„Það má alltaf gera betur í baráttumálum hinsegin fólks en við erum nokkuð framarlega. Það eru samt nokkur lönd sem eru framar okkur og við viljum að sjálfsögðu ná þeim,“ segir Steinunn.

Það lá vel á þeim Kolfinnu Rut Schjetne, Þórhildi Þorbjarnardóttur, Friðriki Úlfari Ingimarssyni, Antoni Yngva Sigmundssyni og Haraldi Erni Haraldssyni þegar blaðamaður hitti á þau. „Þetta er bara geðveikt. Ég er að sjá þetta í fyrsta skipti og hér er fullt, fullt af fólki. Ég hef bara aldrei séð jafn mikið af fólki koma saman á Íslandi. Þetta er alveg frábært,“ segir Haraldur.

„Það er alveg geggjað að sjá hversu margir taka þátt í þessu, og allskonar fólk,“ bætti Kolfinna við, en hópurinn ætlaði að taka þátt í hátíðarhöldunum fram eftir kvöldi.

Langt í land fyrir marga aðra hópa í hinsegin-samfélaginu

Freyja Haraldsdóttir hefur mætt í gönguna undanfarin ár en nú tók hún þátt í fyrsta skipti. „Andinn er mjög góður eins og alltaf og hér er mikil gleði,“ segir Freyja.

Aðspurð um stöðu réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi svarar Freyja: „Ég held að við montum okkur allt of mikið. Það er fínt að klappa sér á bakið og vera ánægður en nú þurfum við bara að halda áfram. Það er mjög langt í land fyrir marga aðra hópa í hinsegin-samfélaginu. Þannig bara áfram veginn, það er alltaf hægt að gera betur.“

En þrátt fyrir að Gleðigöngunni sé lokið heldur ballið áfram á Hinsegin dögum. Samtökin 78 halda ungmennapartí í húsakynnum sínum að Laugavegi 3 klukkan 20 og svo verður Pride-ball haldið á Rúbín í Öskjuhlíð kl. 23. 

Arnarhóll var troðfullur af fólki og Ingólfur tók að sjálfsögðu …
Arnarhóll var troðfullur af fólki og Ingólfur tók að sjálfsögðu einnig þátt. Eva Björk
Guðrún Steinunn og Bjargey Anna eru fastagestir í Gleðigöngunni.
Guðrún Steinunn og Bjargey Anna eru fastagestir í Gleðigöngunni. Eva Björk
Kolfinna Rut Schjetne, Þórhildur Þorbjarnardóttir, Friðrik Úlfar Ingimarsson, Anton Yngvi …
Kolfinna Rut Schjetne, Þórhildur Þorbjarnardóttir, Friðrik Úlfar Ingimarsson, Anton Yngvi Sigmundsson, Haraldur Örn Haraldsson fannst geðveikt í göngunni. Eva Björk
Valsstelpurnar Kristjana Þórdís Jónsdóttir og Hildur Karitas Gunnarsdóttir fannst frábært …
Valsstelpurnar Kristjana Þórdís Jónsdóttir og Hildur Karitas Gunnarsdóttir fannst frábært hversu margir lögðu leið sína í miðbæinn. Eva Björk
Freyja Haraldsdóttir benti á að þrátt fyrir að staða mála …
Freyja Haraldsdóttir benti á að þrátt fyrir að staða mála væri góð á Íslandi er enn langt í land fyrir ýmsa hópa hinsegin-samfélagsins. Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina