Stundar bátarallí af fullum krafti í Noregi

Íslendingurinn Halldór Vilberg Reynisson lenti í 3. sæti á Noregsmeistaramótinu í GT15 bátarallí sem haldið var í Trönsberg um helgina. Það munaði minnstu að Halldór, sem er fæddur árið 1999, lenti í öðru sæti en voru einungis nokkrar millísekúndur sem skildu annað og þriðja sæti að. Keppt var í fleiri bátaflokkum um helgina og fylgdust þúsundir manna með bátarallíinu.

Halldór hefur vægast sagt komið inn með krafti í bátarallíið en hann er sem stendur í 1. sæti í Noregsbikarnum með átta stiga forskot á næsta mann þrátt fyrir að hafa ekki byrjað í íþróttinni fyrr en núna í vor.

„Ég keypti mér lítinn sportbát og mótor fyrir fermingarpeningana mína. Við vorum að vinna í mótornum en fengum hann ekki til að ganga almennilega. Við settum inn auglýsingu á einhverja síðu og í kjölfarið hringdi maður í mig sem spurði hvort ég vildi ekki fara að keppa í bátarallí,“ segir Halldór um það hvernig það hafi komið til að hann byrjaði að stunda sportið.

„Hann sagðist vera með bát og allar græjur. Þetta var eins og að vera dreginn út í lottói,“ segir Halldór en það var siglingaklúbburinn DST sem hafði samband við hann. Honum var boðið að fá lánaðan bát, kerru og mótor endurgjaldslaust á meðan hann er að keppa í íþróttinni. „Oftast þarf að borga einhverja upphæð fyrir bátinn sem fæst síðan til baka þegar bátnum er skilað,“ segir Halldór. Hann býr við sjóinn og eyðir því flestum sínum stundum úti á sjó við æfingar. „Sá sem hringdi í mig er þjálfarinn minn núna. Hann og pabbi hans eru búnir að hjálpa mér mikið í sumar,“ segir Halldór.

Næsta keppni sem telur til stiga í Noregsbikarnum verður í Drammen 23. ágúst næstkomandi.

Bátarallí vinsælt í Noregi

Halldór keppir í flokknum GT15 sem stendur fyrir 15 hestafla mótora en íþróttin fer þannig fram að siglt er í hringi líkt og gert er í mótorkrossi eða bílarallí nema úti á sjó og ná bátarnir allt að 65 km/klst hraða.

Hann segir að draumurinn sé að keppa í formúlu 4 en segir það stórt skref því þá þarf hann að fjárfesta í Formúlu 4 bát sem sé kostnaðarsamt og hann þurfi því  að finna sér styrktaraðila ætli hann sér að stíga það skref.

Bátarallí er vinsælt í Noregi að sögn Halldórs og er keppt í mörgum flokkum þar úti, í GT15, GT30, Formúlu 1, Formúlu 2 og Formúlu 4. Þá er einnig keppt í svokölluðum „utanstrandaflokk“ svo fátt eitt sé nefnt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert