Kenna stelpum að rokka

„Hugmyndin er að efla og styrkja ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun,“ segir Áslaug Einarsdóttir, einn aðstandenda rokksumarbúða fyrir stelpur sem haldnar verða í Hólmavík dagana 15. til 17. ágúst. 

„Þetta eru helgarlangar rokkbúðir þar sem tólf til sextán ára stelpur vinna í hljómsveit, læra á hljóðfæri, semja frumsamin lög og taka þátt í vinnusmiðju,“ segir Áslaug.

Mynduðu sautján sveitir í sumar

Búðirnar eru hluti af samtökunum Stelpur rokka, en haldnar hafa verið búðir á þeirra vegum undanfarin þrjú ár. Búðirnar á Hólmavík eru þær fjórðu í ár, en áður hafa þær verið haldnar fyrir stelpur í Reykjavík og á Akureyri auk „kvennarokks“ fyrir konur tuttugu ára og eldri. 

Áslaug segir sautján hljómsveitir hafa orðið til upp úr búðunum í ár og vonast hún til þess að einhverjar þeirra lifi áfram og meðlimirnir haldi áfram í tónlist.

„Margar stelpnanna hafa aldrei snert hljóðfæri áður og það kemur ekki að sök, þetta er frekar hugsað sem vettvangur fyrir ungar konur til að koma saman og skapa og þora að vera í hljómsveit.“

Telur tónlistarheiminn karllægan

Áslaug telur nauðsynlegt að konur skipi stærri sess í tónlistarlífi Íslendinga.

„Tónlistarheimurinn er mjög karllægur. Það er skortur á rými fyrir konur í listsköpun og okkar markmið er að opna þetta rými fyrir konur í tónlist,“ segir Áslaug.

Leiðbeinendur eru allir kvenkyns, en Áslaug segir að þar sé um að ræða reynslumiklar konur úr tónlistarheiminum sem og konur sem hafi reynslu af störfum með ungu fólki. Leiðbeinendurnir vinna sjálfboðastarf.

Fjárskortur ekki vandamál

Áslaug ítrekar að ekki sé nauðsynlegt að búa á Hólmavík til þess að taka þátt og segir fjárskort ekki eiga að hindra neinn í að taka þátt.

„Við viljum halda rokkbúðir sem víðast um landið, og auðvitað eru stelpur frá öllum Vestfjörðunum velkomnar. Við vísum engum frá vegna fjárskorts, en gjaldið er niðurgreitt fyrir þá sem ekki geta borgað,“ segir Áslaug. 

Vefsíða rokkbúðanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert