Segja útgjöld innan fjárheimilda

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið segir að útgjöld Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða innan fjárheimilda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Í nýútkominni skýrslu um fjárreiður ríkissjóðs á fyrri hluta ársins sé ekki tekið tillit  til aukafjárveitingar né heldur þeirra tæplega 200 milljóna sem sjóðurinn átti óráðstafaðar frá fyrra ári vegna verkefna sem búið er að úthluta styrkjum til og greiddir eru út eftir framvindu verkefnanna. 

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að Vigdís Hauksdóttir,  formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþing­is, gagn­rýn­i að 234 millj­ón­um króna skuli hafa verið varið til fram­kvæmda­sjóðs ferðamannastaða án samþykk­is Alþing­is.

„Það er búið að veita fé í sjóðinn á grund­velli minn­is­blaðs sem lagt var fram í rík­is­stjórn í sum­ar um 380 millj­óna auka­fjár­veit­ingu. Alþingi hef­ur hins veg­ar ekki samþykkt fjár­veit­ing­una. Ég mun krefja fjár­málaráðuneytið svara vegna þessa. Það má ekki greiða fjár­muni úr rík­is­sjóði nema að feng­inni heim­ild Alþing­is,“ seg­ir Vig­dís í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag.

Tilkynningin í heild sinni 

„Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar síðustu daga um framúrkeyrslu ríkisstofnanna á fyrri hluta ársins vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið taka skýrt fram að útgjöld Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru innan fjárheimilda.  

Um miðjan maí samþykkti ríkisstjórnin að veita ríflega 380 milljónum króna til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum á þessu sumri. Um var að ræða sérstaka úthlutun vegna verkefna sem talin voru sérstaklega brýn vegna verndunar náttúru og öryggissjónarmiða.

Í nýútkominni skýrslu um fjárreiður ríkissjóðs á fyrri hluta ársins er ekki tekið tillit  til ofangreindrar aukafjárveitingar né heldur þeirra tæplega 200 milljóna sem sjóðurinn átti óráðstafaðar frá fyrra ári vegna verkefna sem búið er að úthluta styrkjum til og greiddir eru út eftir framvindu verkefnanna,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is