Lagarfoss kominn til hafnar

Nýjasta skip Eimskipafélagsins, Lagarfoss, kom til Reykjavíkurhafnar í fyrsta skipti í dag. Skipstjórinn, Guðmundur Haraldsson, tók við skipinu í Kína ásamt ellefu manna áhöfn þann 24. júní síðastliðinn.

Lagarfoss mun leysa Selfoss af á gulu leiðinni sem liggur frá Grundartanga, Reykjavík og Vestmannaeyjum til Þórshafnar í Færeyjum, Immingham í Bretlandi, Hamborgar og Rotterdam. Með tilkomu nýja skipsins opnast möguleiki á að bæta við viðkomu í Vlissingen í Hollandi, meðal annars til að þjóna betur Norðuráli á Grundartanga, einum af stærstu viðskiptavinum félagsins.

Burðargeta skipsins er 12.200 tonn, það er 140,7 metrar á lengd og 23,2 metrar á breidd. Skipið er búið öflugum skut- og bógskrúfum og er sérstaklega styrkt fyrir íssiglingar, með ísklassa 1A, auk þess að vera með tengla fyrir 230 frystigáma.

Lagarfoss er sjöunda skipið sem ber þetta nafn hjá félaginu. Lagarfoss I var þriðja skipið sem Eimskip eignaðist og var það í eigu félagsins frá árinu 1917 til 1949.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir þessa fjárfestingu undirstrika þá áherslu sem Eimskip leggi á flutninga á milli Íslands, Færeyja, Bretlands og norðanverðrar Evrópu. Nýja skipið sé sérhæft og vel útbúið fyrir aðstæður á Norður-Atlantshafi og muni styrkja þjónustu við viðskiptavini okkar.

„Lagarfoss er stærra og hraðskreiðara skip en Selfoss og mun því auka áreiðanleika þjónustunnar, auk þess sem nýja skipið er hagkvæmara í rekstri og umhverfisvænna. Gula leiðin er viðkvæm fyrir töfum vegna farmsins sem þar er fluttur, en við flytjum í viku hverri ferskan fisk til afhendingar á fiskmörkuðum, auk þess sem aukning er á áframflutningi á ferskum fiski með bílum í Evrópu og með flugi til Bandaríkjanna og Kína.

Þetta er mjög kærkomin og jákvæð þróun fyrir Eimskip á hundrað ára afmælisári félagsins. Viðræður um afhendingu seinna skipsins eru nú í gangi og niðurstöðu að vænta á þriðja ársfjórðungi, en ljóst er að afhendingin mun ekki verða fyrr en á árinu 2015,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert