„Clinton“ var hafnað af mannanafnanefn

Hillary Clinton er gríðarvinsæl um þessar mundir en ekki fylgir …
Hillary Clinton er gríðarvinsæl um þessar mundir en ekki fylgir sögunni hvort þau sem sóttu um millinafnið Clinton hafi viljað nefna í höfuð hennar. AFP

Mannanafnanefnd kvað upp nokkra úrskurði á fundi sínum þann 30. júlí. Flestir voru þeir jákvæðir, og voru m.a. nöfnin Lótus, Amil og Ermenrekur samþykkt. Umsóknum um millinafnið Clinton og eiginnafnið Diamond var hinsvegar hafnað.

Í rökstuðningi mannanafnanefndar er bent á að samkvæmt 2. málsgrein 6 greinar laga um mannanöfn skuli millinafn dregið af íslenskum orðstofnum, en megi þó ekki hafa nefnifallsendingu. Millinafnið Clinton teljist ekki dregið af íslenskum orðstofnum, og fullyrði því ekki skilyrðum laga.

Eiginnafnið Diamond var aðeins snúnara í afgreiðslu ef marka má úrskurð nefndarinnar. Nafnið fullnægir þeim skilyrðum laga að geta tekið íslenska eignarfallsendingu og að brjóta ekki í bág við íslenskt málkerfi. Hinsvegar reynir á skilyrði um rithátt, því Diamond er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem „i“ er ekki ritað á undan „a“ inni í orði í ósamsettum orðum í almennu íslensku máli.

Eiginnafnið Hrafnfífa var samþykkt og er því nú komið á mannanafnaskrá. Það sama má segja um eiginnafnið Hjaltalín, sem til þessa hefur verið ættarnafn í íslensku máli. Nokkur dæmi eru þó um að það sé gefið sem eiginnafn, bæði á drengi og stúlkur.

Eiginnöfnun Lótus og Amil taka bæði íslenskri beygingu í eignarfalli og sömuleiðis nafnið Ermenrekur. Eru þau því öll komin á mannanafnaskrá.

Sjá úrskurði mannanafnanefndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert