Forritarar spreyta sig á Bárðarbungu

Áhugi fólks á jarðhræringum undir jökli á sér lítil takmörk, enda maðurinn lítill í samanburði við slíka viðburði sem eru bæði heillandi og ógnvekjandi í senn. Skjálftarnir eru orðnir yfir 1.600 talsins á síðustu 48 klukkutímum, umfang sem getur verið erfitt að ná utan um en forritarar leggja sitt að mörkum til að setja hræringarnar fram með myndrænum hætti, eins og sjá má í nokkrum mismunandi útgáfum hér að neðan.

Fyrst má geta myndbands sem baskneski forritarinn og hönnuðurinn Aitor García Rey, sem búsettur er í Reykavík,  tók saman fyrir Iceland Mag, en það sýnir skjálfta síðustu 48 klukkustunda á 10 sekúndum:

Aðrir hafa plottað jarðskjálftahrinurnar upp í þrívídd, en þegar það er gert gefur það nokkra vísbendingu um innri gerð Bárðarbungu, eins og Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur bendir á, á bloggi sínu og vísar í hreyfimynd í þrívídd sem gerð var af skjálftavirkninni og má nálgast hér.

Gögnin eru sótt á vef Veðurstofu Íslands en myndin sýnir dreifingu skjálftanna í tíma og rúmi. Litir á punktunum breytast með tíma, þannig að elstu skjálftarnir eru sýndir með bláum punktum, þá gulir, brúnir og þeir yngstu eru rauðir punktar. Örin bendir í norðurátt.

Skjálftarnir raða sér umhverfis um jarðskorputappa

„Myndin sýnir mjög vel að jarðskjálfarnir mynda hring eða lóðréttan hólk í jarðskorpuna undir Bárðarbungu,“ segir Haraldur og bendir á að þetta sé í samræmi við kenningar jarðvísindamannanna Meredith Nettles og Göran Ekström um gerð Bárðarbungu, sem hann fjallar um á bloggi sínu. 

Þar kemur fram að þar sem megineldstöðin Bárðarbunga er hulin jökli séu upplýsingar frá venjulegum jarðfræðiathugunum ekki fyrir hendi. Því þarf að treysta á jarðeðlisfræðilega útreikninga. Líkan þeirra Nettles og Ekström af Bárðarbungu byggir á jarðskjálftagögnum. Þau túlka skjálftana sem afleiðingu af þrýstingi af keilulaga jarðskorputappa undir bungunni. Ofan á tappanum situr kvikuþró, og þegar kvika safnast fyrir í grunnu kvikuþróinni þá vex þrýstingur þar, sem hefur þær afleiðingar að tappanum er ýtt niður, hringlaga sprungur myndast umhverfis tappann og valda jarðskjálftum.

Skjálftavirknin síðustu daga hefur að sögn Haraldar raðað sér í hringlaga form eftir útlínum öskjunnar. Þrívíddarmyndin rennir stoðum undir þetta að sögn Haraldar og sýnir mjög vel að skjálftarnir mynda hring eða lóðréttan hólk í jarðskorpunni undir Bárðarbungu. „Það er mjög áhugavert að sjá hvernig skjálftarnir raða sér upp í tíma umhverfis tappann. Fyrst virðist ein hlið tappans vera að brotna, síðan önnur og svo framvegis, allan hringinn.“

Fleiri forritarar hafa spreytt sig á því að setja hræringarnar fram með myndrænum hætti. Eina útgáfuna má nálgast hér, þar sem hægt er að skoða hvernig mynstrið breytist eftir klukkustundum. Þá má sjá þriðju útgáfuna hér að neðan, sem Sigurður Þór Garðarsson verkfræðingur útbjó: 

mbl.is