„Getur farið á hvorn veginn sem er“

Frá Bárðarbungu í gær.
Frá Bárðarbungu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, lenti á Reykjavíkurflugvelli í kvöld. Um borð voru jarðvísindamenn, sem flogið var með yfir Bárðarbungu og þau svæði í Vatnajökli sem hafa skolfið undanfarna daga. Með í för var Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.

„Flugið gekk vel, okkur tókst að safna þeim upplýsingum sem við ætluðum okkur. Við náðum ratsjármælingum af jöklinum og árfarvegi Jökulsár á Fjöllum, sem mun koma að miklu gagni ef til goss kemur.“ Engar breytingar sáust á yfirborði jökulsins.

Magnús segir erfitt að meta líkurnar á því hvort til goss komi. „Þetta getur farið á hvorn veginn sem er. Það veit enginn líkurnar, en þær eru svipaðar á hvorn veginn sem er.“

Þarf að bræða mikinn ís

Magnús Tumi segir að ef til goss kæmi væri að öllum líkindum tvennt í stöðunni. „Líklegri staðan er sú að það myndi gjósa undir Dyngjujökul, þar sem gangur er að brjótast til norðausturs. Þar er jökullinn um 500 metra þykkur, og þyrfti því að bræða sig í gegnum mikinn ís áður en að gosið kæmist upp í gegnum jökulinn,“ segir Magnús Tumi.

„Við það myndi gosið breytast í sprengigos, svipað því sem gerist þegar gýs í Grímsvötnum. Hinn kosturinn er að gosið yrði í Bárðarbunguöskjunni, þar sem ísinn er allt að 800 metra þykkur, og þyrfi þá að bræða sig í gegnum enn meiri ís.“

Hann segir að þessu gæti fylgt töluvert jökulhlaup. Rennsli í Jökulsá á Fjöllum gæti orðið á bilinu 5.000 til 10.000 rúmmetrar á sekúndu. „Ef gosið yrði það sem kalla má algeng stærð á íslensku gosi má gera ráð fyrir að hlaupið yrði um 10 til 20 sinnum meira sumarrennsli en gengur og gerist í Jökulsá. Ekki er þó hægt að útiloka stærra hlaup.“

1/10 til 1/5 af hlaupinu 1996

Þó sé ekki hægt að tala um hamfarahlaup. „Svona hlaup, þótt stórt væri, teldist þó ekkert hamfarahlaup. Til að setja það í samhengi þá væri það ekki nema 1/10 til 1/5 af hlaupinu sem varð á Skeiðarársandi 1996.“

Aðspurður segir hann ekkert benda frekar til þess að gos í jöklinum myndi tappa af þrýstingi sem gæti verið að myndast í Kötlu eða Heklu. „Eldgos í Bárðarbungu hefur engin áhrif á fjarlægari eldsstöðvar,“ segir hann.

Enn eru miklar jarðhræringar í Bárðarbungu, en um 1.700 skjálftar hafa þar orðið undanfarna tvo sólarhringa.

Magnús Tumi Guðmundsson um borð í TF-SIF í dag.
Magnús Tumi Guðmundsson um borð í TF-SIF í dag.
Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist …
Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist til innan jökulsins.
mbl.is