Hyggjast ganga 200 km í þágu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Björn Magnússon og Hálfdan Steinþórsson hyggjast ganga um 200 km …
Björn Magnússon og Hálfdan Steinþórsson hyggjast ganga um 200 km leið til styrktar uppbyggingar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ljósmynd/Hálfdan Steinþórsson

Björn Magnússon, yfirlæknir sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og tengdasonur hans, Hálfdan Steinþórsson, framkvæmdastjóri GOmobile, hafa efnt til áheitagöngu yfir hálendið, til að afla fjár við fyrirhugaða opnun göngudeildar lyflækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Markmiðið með göngunni er að safna 2 milljónum króna fyrir göngudeildina, sem stendur til að verði opnuð í október næstkomandi.

„Markmiðið með þessari göngudeild er að sinna flókinni lyfjagjöf, blóðgjöfum og annarri meðferð vegna krabbameina, gigtsjúkdóma og annarra erfiðra lyflæknisvandamála,“ segir Björn, en hingað til hafa sjúklingar þurft að fara til Reykjavíkur í ýmsar meðferðir sem ekki hafa verið aðgengilegar á Selfossi. Björn segir flókinni lyfjagjöf hafa verið sinnt á sjúkrahúsinu áður, en við lélegar aðstæður.

Göngudeildin gjörbreytir aðstöðunni

Fyrirhuguð nýjung á sjúkrahúsinu er svokölluð blóðskilun vegna langvinnrar nýrnabilunar. „Þetta hefur ekki verið gert á landsbyggðinni áður, nema á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað. Annars er þetta bara bundið við Landsspítalann,“ segir Björn. Að hans sögn mun göngudeildin gjörbreyta aðstöðu til slíkra meðferða og spara skjólstæðingum ótaldar ferðir og eftirlit á Landsspítala. „Sjúklingar með langvinna nýrnasjúkdóma hafa hingað til þurft að fara héðan til Reykjavíkur tvisvar sinnum í viku í öllum veðrum til að fá meðferð,“ segir hann. „Við sjáum að við getum hjálpað þessum einstaklingum.“

Blóðskilunin og krabbameinsmeðferðin fer fram í náinni samvinnu við sérfræðinga frá Landsspítala.

„Erum að reyna að létta undir“

„Við vitum að fjármagnið til heilbrigðismála er af skornum skammti,“ segir Björn. „Það stóð til að endurbyggja þennan spítala hér en það var allt lagt til hliðar. Nú er verið að lagfæra gamla álmu og breyta henni í göngudeild, svo við erum að reyna að létta undir og safna fyrir tækjakaupum,“ bætir hann við. Gangan mun ekki vera sú fyrsta sem þeir Björn og Hálfdan ganga í þessum tilgangi, en árin 2006 og 2011 gengu þeir til styrktar tækjavæðingar endurhæfingardeildar fyrir lífsstílshópa Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupsstað. Gengu þeir þá alls um 250 km leið í hvort skiptið, og einblíndu á að hafa göngurnar mjög krefjandi til að vekja áhuga á lífsstílsbreytingum og hreyfingu.

Láta jarðhræringar ekki stoppa sig

„Við ætluðum upprunarlega að ganga frá Nýjadal niður Bárðargötu og að Jökulheimum. Þá framhjá Langasjó og fara Fjallabaksleið nýrri og í Landmannalaugar og taka svo Laugaveginn,“ segir Björn, en sökum jarðhræringa í Bárðarbungu þurftu félagarnir að endurskoða gönguleiðina. „Það er ljóst að við förum ekki þessa leið, að minnsta kosti ef það verður eldgos. Það er sjálfsagt ekki mjög sniðugt að ganga við rönd Bárðarbungu og Vatnajökuls,“ segir hann og hlær. Jarðhræringarnar stoppuðu þá félagana þó ekki. „Við vorum komnir svo langt með áformin að við ákváðum að hætta ekki við, jafnvel þó það komi eldgos,“ segir Björn.

Þeir Björn og Hálfdan leggja af stað þriðjudaginn 26. ágúst og stefna að því að vera komnir í Þórsmörk laugardaginn 30. ágúst, en þar mun fara fram skemmtun á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í tilefni afmælis stofnunarinnar.

mbl.is