Herðubreiðarlindir gætu horfið

Gróðurinn í Herðubreiðarlindum þykir furðu fjölbreyttur miðað við hæð yfir …
Gróðurinn í Herðubreiðarlindum þykir furðu fjölbreyttur miðað við hæð yfir sjávarmáli. Má þar nefna ætihvönn, gulvíði og fjólubláar eyrarrósarbreiður. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Hugsanlegt er að gróðurvinin í Herðubreiðarlindum hyrfi meira og minna ef stórt hlaup verður í Jökulsá á Fjöllum. Margir unna þessari litlu paradís sem er sannkölluð vin í svartri eyðimörkinni umhverfis Vatnajökul, en lífríkið þar er viðkvæmt og Jökulsáin gengur á það jafnvel í venjulegu sumarrennsli.

„Ef við fáum stórt hlaup og ef það verður langvarandi mikið vatnsstreymi á svæðinu þá gætu þær alveg farið til fjandans,“ segir Daði Lange Friðriksson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðurlandi eystra.

Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, tekur í sama streng. „Án ábyrgðar þá myndi ég nú segja að líklegast sé að gróðurvinin í Herðubreiðarlindum færi, meira og minna. Það hefur þurft að verja hana undanfarin ár bara fyrir venjulegu sumarrennsli og það er mjög líklegt að allir minni varnargarðar sem eru í ánni muni sópast burt um leið.“

Stöðugt að étast úr gróðrinum

Herðubreiðarlindir voru friðlýstar árið 1974, m.a. vegna þess óvenjulega fjölbreytta gróðurs, miðað við hæð yfir sjávarmáli, sem sprettur á bökkum lindarvatnsins sem þar streymir undan jaðri hraunsins og myndar ána Lindá. Talið er að Fjalla-Eyvindur hafi hafst þar við í gjótu heilan vetur.

Andstæðurnar í náttúrunni eru miklar þegar komið er á þennan griðastað eftir langt ferðalag í gegnum hraun og sanda þar sem lítið líf þrífst. Rétt austan við Herðubreiðarlindir rennur Jökulsá á Fjöllum og eirir engu sem fyrir verður. „Það hefur stöðugt verið að étast úr gróðrinum undanfarin ár og ég myndi halda að það þyrfti ekkert sérstaklega stórt flóð til þess að hún myndi leggjast yfir þetta allt,“ segir Hjörleifur.

Daði Lange bendir á að jökulvatn sé nú þegar búið að taka talsvert af sjálfri Lindánni. „Lindáin er orðin helmingi styttri en hún var í kringum 1960 því Jökulsáin er búin að éta sig þarna upp. Það er margbúið að breyta vaðinu og færa veginn upp í hraunið. Þegar menn voru að fara þarna fyrst var alltaf farið fyrir neðan hraunið.“

Varnargarðar bresta á hverju sumri

Árið 2000 var vígður varnargarður við ármót Kreppu og Jökulsár á Fjöllum, sem ætlaður var til að verja Herðubreiðarlindir fyrir ágangi jökulsvatnsins. Það var gert í kjölfar stórs hlaups í Kreppu sumarið áður, sem skildi eftir sig miklar gróðurskemmdir við Herðubreiðarlindir. Það þarf þó ekki hlaup til því á varnargarðana reynir líka í hefðbundnu sumarrennsli. Undanfarin ár hefur á hverju ári verið mokað upp úr árfarveginum í garðana, sem hafa brostið á hverju ári að sögn Daða og jökulvatnið flætt yfir.

Eftir gosið í Grímsvötnum 2011 var Vatnajökull svartur að hluta vegna öskulags sem varð til þess að það sumarið bráðnaði heldur meira en í venjulegu ári. „Þá braut áin þarna land og hefði það haldið áfram sumarið eftir þá hefði þurft að gera eitthvað róttækt, annaðhvort með varnargörðum eða með því að færa veginn,“ segir Hjörleifur og á þá við Öskjuleið F88, sem nú er lokuð.

Það sumar fór rennsli árinnar oft upp í 800 rúmmetra á sekúndu. Miklar sveiflur eru í rennslinu, á veturna er hún oft innan við 100 rúmmetrar en eðlilegt sumarrennsli er frá 450 rúmmetrum og upp í 600 á sekúndu þegar mest er. Vatnavárhópur Veðurstofu Íslands áætlar að hugsanlegt hlaup gæti orðið frá 5000 til 20.000 rúmmetrum á sekúndu, ef eldgos verður í Bárðarbungu, margfalt meira en venjulegt sumarrennsli.

Gæti jafnað sig með tímanum

Áður en unnendur Herðubreiðarlinda bresta í grát er þó rétt að geta þess að vatnsmagnið eitt hefur ekki allt um það að segja hvort gróðurvinin skemmdist varanlega eða hyrfi. „Þetta snýst líka um það hvað þetta er langur tími. Ef þetta er bara smáskot þá jafnar það sig með tímanum og gróðurinn vex bara upp úr þeim sandi sem eftir verður. En ef þetta liggur og byrjar að rífa eitthvað þá geta menn bara gleymt Herðubreiðarlindum,“ segir Daði Lange.

„Þannig að það má alveg hafa áhyggjur af þeim, en menn geta kannski ekki gert neitt mikið í því heldur hvort eð er,“ bætir Daði við og bendir á að maðurinn er æði-smár í hinu jarðfræðilega samhengi.

„Við hugsum alltaf um hvernig landið er eins og við sjáum það á okkar líftíma, en það hafa komið hamfarahlaup áður og það hafa komið eldgos og hraun, en landið gróið upp aftur. Þetta er gangur lífsins. Það kemur bara eitthvað nýtt í staðinn.“

Herðubreiðarlindir eru sannkölluð vin í svartri eyðimörkinni umhverfis Vatnajökul.
Herðubreiðarlindir eru sannkölluð vin í svartri eyðimörkinni umhverfis Vatnajökul. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
Ferðafólk á vaðinu yfir Lindá, sem hefur verið að færast …
Ferðafólk á vaðinu yfir Lindá, sem hefur verið að færast til vegna ágangs Jökulsár á Fjöllum. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
Þorsteinsskáli í Herðubreiðarlindum.
Þorsteinsskáli í Herðubreiðarlindum.
Andstæðurnar í náttúrunni eru miklar þegar komið er inn í …
Andstæðurnar í náttúrunni eru miklar þegar komið er inn í Herðubreiðarlindir eftir langt ferðalag gegnum hraun og sanda þar sem lítið líf þrífst. Í miklu jökulhlaupi gæti gróðurvinin horfið. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
Ferðafólk á gróskumiklum bökkum Herðubreiðarlinda.
Ferðafólk á gróskumiklum bökkum Herðubreiðarlinda. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert