Varasamt að fljúga yfir Heklu

Frá gosinu í Heklu árið 2000.
Frá gosinu í Heklu árið 2000. mbl.is/Golli

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur sent Samgöngustofu bréf þar sem hann bendir á að varasamt geti verið að fljúga yfir Heklu, þar sem hún geti byrjað að gjósa með litlum fyrirvara. Páll segir hættu á því að grunlaus flugmaður geti flogið inn í gossstrókinn við Heklu með skelfilegum afleiðingum. Litlu munaði að svo færi í byrjun Heklugossins 17. ágúst 1980.

Vefurinn Alltumflug.is gerði úttekt á þeim fjölda véla sem fóru um flugleiðina beint yfir Heklu í gær og kom í ljós að þær voru 19 talsins, þar af 17 farþegaþotur auk einnar einkaþotu og einnar fraktflugvélar. 

Almennt vinnulag á ekki við um Heklu

Í bréfi Páls, sem birt er á alltumflug.is í dag, kemur fram að hann hafi ekki í huga á almennu hættu sem stafi af því að fljúga yfir virkt eldfjall, enda séu um 30 slík á Íslandi og lítil áhætta að fljúga yfir þau flest. Hekla sé hinsvegar sérstök af þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna þess að hún virðist óvenju vinsæl meðal flugmanna, því 10-20 stórar farþegavélar fara beint yfir fjallið á degi hverjum. Ekkert annað eldfjall nálgast þessa tíðni, að sögn Páls. Í öðru lagi sker Hekla sig úr vegna þess að hún hefur verið að undirbúa gos í 14 ár, allt frá síðasta gosi. 

Í þriðja lagi er hættan meiri við Heklu vegna þess að mælanlegur fyrirvari gosa þar er óvenjustuttur, eða 23-79 mínútur samkvæmt reynslu frá gosunum 1970, 1980, 1991 og 2000. Flest önnur eldfjöll hafa sýnt lengri fyrirvara. Gosið árið 2000 er það eina í Heklu þar sem gefin var út aðvörun áður en gosið kom upp, enda var fyrirvarinn lengstur þá eða 79 mínútur.

Páll bendir á að ekki sé víst að hægt verði að gefa út viðvörun á undan næsta gosi. Við þetta bæist að byrjunarfasi Heklugosa er venjulega öflugur og gosstrókurinn rís hratt. „Almennar reglur og vinnulag í sambandi við flug og eldgos duga því tæpast hér, þótt þær geti verið gagnlegar við önnur eldfjöll,“ segir í bréfi Páls til Samgöngustofu.

Strókurinn rís hratt upp í flughæð

Í samtali við alltumflug.is segir Páll að það geti tekið gosmökkinn í Heklu ekki nema 5-20 mínútur að rísa upp í þá hæð þar sem flugvélar fljúga. Hann metur það svo að aðeins þyrfti að færa flugleiðina um 10 km í norður eða suður, til að vera öruggur og minnka áhættuna.

Samgöngustofa gaf þau svör  að engar takmarkanir séu gefnar út fyrir flugumferð nema fyrirséð sé að gos sé að hefjast, eða ef gos er þegar hafið. Páll bendir hinsvegar á í samanburði að í raun sé ekki mikil hætta á því þótt farþegaþotur séu að fljúga yfir Vatnajökul, því það muni taka gos í Bárðarbungu einhverjar klukkustundir að fara í gegnum jökulinn og fyrirvarinn verði því lengri. Annað eigi hinsvegar við um Heklu.

Hér að neðan sést listi yfir þær flugvélar sem flugu beint yfir topp Heklu í gær, 21. ágúst:

3:18 - MMM9601 - Gulfstream (einkaþota) - Keflavik (KEF) - Unknown - Gulfstream VI
7:33 - Etihad Airways - EY103 - Abu Dhabi (AUH) - New York (JFK) - Boeing 777-300ER
9:55 - United Airlines - UA69 - Stockholm (ARN) - Newark (EWR) - Boeing 757-200
10:45 - SAS - SK902 - Stockholm (ARN) - Newark (EWR) - Airbus A330-300
11:05 - Air Berlin - AB7420 - Berlin (TXL) - Chicago (ORD) - Airbus A330-200
12:05 - Austrian Airlines - OS65 - Vienna (VIE) - Chicago (ORD) - Boeing 767-300ER
12:10 - Ukraine International - PS231 - Kiev (KBP) - New York (JFK) - Boeng 767-300ER
12:24 - Austrian Airlines - OS71 - Vienna (VIE) - Toronto (YYZ) - Boeing 767-300ER
13:34 - United Airlines - UA953 - Munich (MUC) - Chicago (ORD) - Boeing 777-200ER
13:59 - Aeroflot - SU150 - Moscow (SVO) - Havana (HAV) - Airbus A330-200
14:49 - Delta Air Lines - DL203 - Stockholm (ARN) - New York (JFK) - Boeing 757-200
15:04 - Air Canada - AC811 - Istanbul (IST) - Toronto (YYZ) - Boeing 767-300ER
15:54 - Lufthansa Cargo - LH8220 - Frankfurt (FRA) - Chicago (ORD) - McDonnell Douglas MD-11
15:59 - Norwegian Long Haul - DY7091 - Copenhagen (CPH) - Los Angeles (LAX) - Dreamliner 787-8
16:09 - SAS (Business Class) - SK951 - Stavanger (SVG) - Houston (IAH) - Boeing 737-700BBJ
16:29 - SAS - SK943 - Copenhagen (CPH) - Chicago (ORD) - Airbus A340-300
17:14 - Air Canada - AC85 - Tel Aviv (TLV) - Toronto (YYZ) - Dreamliner 787-8
17:24 - Lufthansa - LH434 - Munich (MUC) - Chicago (ORD) - Airbus A340-600
19:19 - SAS - SK901 - Copenhagen (CPH) - Newark (EWR) - Airbus A340-300 

Sjá nánar á alltumflug.is

Bréf Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, til Samgöngustofu sem hann …
Bréf Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði, til Samgöngustofu sem hann sendi nú í ágúst.
Páll EInarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll EInarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is(Ómar Óskarsson
í Heklugosinu 1980 munaði litlu að flugvél lenti inni í …
í Heklugosinu 1980 munaði litlu að flugvél lenti inni í gossstróknum sem reis hratt til himins. Morgunblaðið/Kristinn Ólafsson
Sautjánda Heklugosið frá landnámi, árið 1991, séð frá frá Skarði …
Sautjánda Heklugosið frá landnámi, árið 1991, séð frá frá Skarði í Landssveit. Þegar gosið hófst sást strókurinn fyrst, og síðan blossi. Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert