Útilokar ekki stórt gos

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra í stjórnstöðinni í dag.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna ríkislögreglustjóra í stjórnstöðinni í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við vinnum út frá því að þetta sé mjög lítill atburður og dæmum það meðal annars af þessari virkni sem jarðskjálftamælar sýna og það að enn sjást engin merki á yfirborði jökulsins eða í ánum,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna Ríkislögreglustjóra.

Hann útilokar þó ekki að gosið sé upphafið að stærri atburði. Eins og staðan er nú, er aðeins búið að loka vegunum í kringum Dettifoss. „Það eru margir ferðamenn á svæðinu og fulltrúar Vatnajökulsþjóðgarðs mæltust til þess þar sem það gæti tekið dágóðan tíma að ná öllum ferðamönnum af svæðinu. Það er unnið að því núna hægt og rólega.“

Í versta falli þyrfti að rýma íbúa af svæðinu

Víðir segir að staðan sé ekki svo alvarleg að frekari viðbragðsáætlanir verði virkjaðar. „Áður en við förum í stærri aðgerðir viljum við sjá vatn koma undan jöklunum eða önnur merki um að stærri atburður sé í gangi. Ef það versta í stöðunni gerist þá verða virkjaðar þær viðbragðsáætlanir sem við bjuggum til í vikunni með rýmingu á íbúum og annað slíkt en það er ekkert í stöðunni sem bendir til þess að þess sé þörf,“ segir Víðir. 

Á starfsmannafundi í stjórnstöð almannavarna áðan var farið yfir hvernig mögulegt öskufall myndi verða, ef eldgosið skyldi ná upp úr jöklinum. Ef veðurfar helst stöðugt líka og verið hefur í dag, er líklegt að askan myndi færast í austurátt yfir Austfirði, og síðar yfir hluta af Suðurlandi. 

Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu.
Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu. mbl.is/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert