„Aðstaða sem hefur vantað lengi“

Veitingarhúsið fellur vel inn í umhverfi sitt.
Veitingarhúsið fellur vel inn í umhverfi sitt. ljósmynd/Fésbókarsíða Svörtu fjörunnar

Nýtt þjónustu- og veitingahús, Svarta fjaran, var tekið í notkun 11. júlí s.l. í Reynisfjöru í Mýrdal. Reynisfjara er fjölsóttasti ferðamannastaður Suðurlands og hefur orðið einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna á Íslandi sem heillast af svarta sandinum, stuðlaberginu og öðrum náttúruperlum sem prýða umhverfið.

„Þetta er aðstaða sem hefur vantað lengi á þessu svæði svo við vorum búin að hugsa þetta lengi. Það er ofboðslega mikið af fólki sem kemur á þetta svæði svo þetta gekk ekki lengur upp“ sagði Bergþóra Ástþórsdóttir, einn eigenda Svörtu fjörunnar, sem býður ferðalöngum uppá veitingar og salernisaðstöðu allan sólarhringinn.

Svarta fjaran er einkaframtak landeigenda og bænda frá Reyni, Lækjabakka og Þórisholti. Eigendurnir koma allir að rekstri þjónustu- og veitingahússins. „Við konurnar eru hér að störfum allan daginn en karlarnir hjálpa eftir þörfum“ sagði Bergþóra.

Glæsileg aðstaða

Aðstaðan er einkar glæsileg en undirbúningur hófst fyrir rúmu ári og framkvæmdir um áramótin síðustu. Reist var 270 fermetra hús í kaffi- og veitingarhússtíl sem tekur 90 manns í sæti. Það var arkitektastofan Arkiteó sem hannaði húsið sem þykir falla einstaklinga vel í umhverfið.

„Steinar úr fjörunni voru sigtaðir og notaðir í veggi og gólf en BM-Vallá sá um að forsteypa einingarnar“ sagði Bergþóra um bygginguna. Stórir gluggar eru á framhlið hússins og geta gestir því notið útsýnisins á meðan þeir gæða sér á veitingum úr héraðinu. 

Reynisfjöru sækja ferðamenn allan ársins hring og segir Bergþóra heimsóknir ferðamanna aukast frá ári til árs. Stefna eigendurnir því að því að bjóða uppá heilsársopnun ef nóg er að gera.

Útsýnið frá veitingarhúsinu er stórbrotið.
Útsýnið frá veitingarhúsinu er stórbrotið. ljósmynd/Fésbókarsíða Svörtu fjörunnar
Sjávarmöl úr fjörunni má sjá í veggjum og gólfi.
Sjávarmöl úr fjörunni má sjá í veggjum og gólfi. ljósmynd/Fésbókarsíða Svörtu fjörunnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert