Enn fleiri heimsækja gestastofuna

Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg, bændur á Þorvaldseyri.
Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg, bændur á Þorvaldseyri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bærinn Þorvaldseyri, undir Eyjafjallajökli, þar sem hjónin Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg eru með búskap, hefur orðið að kunnuglegu kennileiti fyrir marga eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010. Ári eftir að gosið hófst opnuðu hjónin gestastofu beint á móti stórbýlinu þar sem ferðamönnum gefst kostur á að fræðast um gosið og kaupa minjagripi.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar en setrið er opið alla daga vikunnar. Gestum hefur fjölgað mikið undanfarin sumur og telur Ólafur aukninguna nema 15-20% frá því í fyrra. Þá heimsóttu um 16.000 manns gestastofuna í júlímánuði.

Umfjöllunin um mögulegt gos í Bárðarbungu hefur ekki skemmt fyrir þó Ólafur telji það ekki hafa mikil áhrif á áhuga ferðamanna á gosinu í Eyjafjallajökli. Erlendir ferðamenn eru þó oft forvitnir og spyrja starfsmenn setursins um mögulegt gos. „Við reynum að útskýra hlutina með þeim hætti að fólk sé ekki hrætt við að koma og ferðast um landið“ sagði Ólafur.

Persónuleg og óhefðbundin sýning

Hluti þeirra sem starfa í gestastofunni bjuggu á Þorvaldseyri og upplifðu því gosið fyrstu hendi sem gefur ferðamönnum færi á að spyrja starfsmennina spjörunum úr og öðlast dýpri skilning á ástandinu. „Flestir sem hér koma héldu að þeir gætu lært meira um gosið af því að skoða sig um í náttúrunni. Þá halda þeir að eldfjallið sé alltaf sýnilegt, ummerki um gosið séu greinileg og halda jafnvel að hér sé allt á rú og stú. Fólk verður því mjög undrandi þegar það sér græn tún og allt í standi fjórum árum eftir gos.“

Í setrinu gefst ferðamönnum einnig tækifæri til þess að horfa á stutta kvikmynd sem Ólafur segir mjög persónulega og óvenjulega. „Þetta er kvikmynd sem tekin er af lífinu á bænum, fólkinu og dýrunum á meðan á gosinu stóð og af því sem gekk á eftir gosið.“

Hluti af starfsfólki gestastofunnar eru í kvikmyndinni svo fólk verður oft mjög undrandi þegar það mætir þeim í afgreiðslunni eftir að hafa horft á hremmingarnar að sögn Ólafs. Þá telur hann myndina verða enn áhrifameiri fyrir vikið.  „Flestir ferðamenn fara mjög ánægðir og upplýstir héðan sem gefur okkur sem stöndum í þessu mikið.“ sagði Ólafur að lokum.

Öskuský gleypti bæinn Þorvaldseyri í gosinu 2010.
Öskuský gleypti bæinn Þorvaldseyri í gosinu 2010. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Gestastofan er vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna.
Gestastofan er vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna. ljósmynd/fésbók Eyjafjallajökull Erupts
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert