Ómar: Hafði ekki hugmynd um bannið

Ómar flaug yfir gosstöðvarnar ásamt myndatökumanni í morgun.
Ómar flaug yfir gosstöðvarnar ásamt myndatökumanni í morgun. mbl.is/RAX

Flugmenn sem fljúga yfir svæði þar sem flugbann var í gildi á gosstöðvum gætu átt á hættu á að sæta sviptingu flugskírteinis. Eins og sjá má í frétt RÚV flaug Ómar Ragnarsson ásamt myndatökumanni yfir gosstöðvarnar í morgun, en þar var haftasvæði í gildi frameftir morgni, eða frá kl. 5.38 í morgun. 

Að sögn Ómars fór hann í loftið frá Egilsstaðaflugvelli klukkan 5.14 í morgun, nokkru áður en bannið tók gildi. Hann segist ekki hafa fengið upplýsingar frá flugumferðarstjórum að bann væri í gildi eða að það væri yfirvofandi. 

Þegar bannið var sett á, var Ómar kominn á svæði þar sem ekki náðist í hann í gegnum talstöðvar og því hafði hann ekki hugmynd um bannið fyrr en hann lenti um klukkan níu í morgun. 

Flug inn á bannsvæði lögbrot

Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, gat í samtali við mbl.is ekki gefið upplýsingar um einstaka mál en ítrekaði að flug á bannsvæði væri lögbrot.

 „Ef  Samgöngustofu berast kvartanir um að flogið sé á lokuðu svæði er brugðist við því og við könnum réttmæti allra kvartana,“ segir Þórhildur.

„Ef við höfum rökstuddan grun um að kvörtun standist kærum við málið til lögreglu. Flug inn á bannsvæði er lögbrot og það gildir um alla.“

Í 77. gr. laga um loftferðir nr. 60 segir m.a. eftirfarandi.

Ef loftfar flýgur inn á svæði þar sem loftferðir eru bannaðar skal loftfarið tafarlaust fljúga út fyrir svæðið og tilkynna þetta þeim handhafa stjórnvalds sem í hlut á.

Fari stjórnandi loftfars eigi eftir fyrirmælum þessarar greinar er handhafa stjórnvaldsins heimilt með viðeigandi ráðum að hindra áframhaldandi flug loftfarsins.

Í 142. gr. sömu laga koma fram eftirfarandi viðurlög við broti á lögunum.

Svipta skal skírteinishafa rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann hefur gerst sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa varhugavert að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.

mbl.is

Bloggað um fréttina