Færeyska skipið farið frá Íslandi

Færeyska skipið Næraberg.
Færeyska skipið Næraberg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Færeyski togarinn Næraberg, sem lá við bryggju við Vogabakka í Reykjavík um helgina, fór frá landinu um sexleytið í gærkvöldi. Gert var við vél skipsins og fékk áhöfnin að lokum fulla þjónustu.

Hafnarstjóri hefur sent þremur ráðherrum bréf vegna málsins, en upphaflega stóð að veita skipinu ekki fulla þjónustu. Hákun J. Djuurhus, sendiherra Færeyja á Íslandi, segir málið óheppilegt. 

Samkvæmt síðunni Marine Traffic virðist skipið stefna til Grænlands, en þar hefur skipið verið við veiðar að undanförnu. 

mbl.is fjallaði fyrst um málið á föstudag en þá höfðu Faxaflóahafnir fengið þau skilaboð að ekki ætti veita skipinu hefðbundna þjónustu, t.d. vatn, rafmagn, viðhald á skipi og olíu á grundvelli fyrstu milligreinar þriðju greinar laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Næraberg veiðir makríl í grænlenskri lögsögu og fellur því undir bannið, en Ísland hefur ekki gert milliríkjasamningu um nýtingu á stofninum. Samkvæmt lögunum átti skipið ekki að fá að koma til íslenskrar hafnar en þar sem bilun var komin upp í vél skipsins og veðurspáin slæm var ákveðið að skipið kæmi til hafnar í Reykjavík.

Fengu fulla þjónustu á endanum

„Þeir fengu fulla þjónustu á endanum, fóru sælir og kátir. Þeir voru ánægðir með málið þegar upp var staðið,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Viðgerð á skipinu lauk í gærmorgun og fékk skipið hefðbundna þjónustu.

Gísli sagði í samtali við mbl.is á föstudag að mikilvægt væri að starfsmenn fengju skýringar á málinu, en þeir litu svo á að veita ætti skipinu viðeigandi þjónustu, þrátt fyrir bann við því í lögunum sem nefnd eru hér að ofan.

„Við sendum bréf til innanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra vegna málsins með ósk um skýringu á nokkrum atriðum,“ segir Gísli en hann vill meðal annars vita hvort hafnarlögin gangi ekki framar lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa.

Hákun J. Djuurhus, sendiherra Færeyja á Íslandi, segir málið óheppilegt. Það hafi aftur á móti verið leyst og vonar hann að mál líkt og þetta komi ekki upp aftur. 

Skarpari skýringa og skilgreininga þörf

Í bréfinu til ráðherranna kemur einnig fram ósk um upplýsingar um gildissvið Hoyvíkursamningsins, þ.e. fríverslunarsamningsins milli Íslands og Færeyja. „Það er augljóst af þessu tilviki að frekar skýringa og skarpari skilgreininga er þörf,“ segir Gísli.

Færeysk-íslenska viðskiptaráðið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem það harmar „vanhugsuð viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna komu færeyska skipsins Næraberg til Reykjavíkur.“

Þar voru íslensk og færeysk stjórnvöld einnig hvött til að grípa til nauðsynlegra aðgerða áður en skaðinn af þessari aðgerð yrði meiri. Þá báðu tæplega 13 þúsund manns Færeyinga afsökunar á Facebook.


Fréttir mbl.is um málið: 

Harma vanhugsuð vinnubrögð stjórnvalda

Biðja Færeyinga afsökunar á Facebook

„Skammast mín fyrir að vera Íslendingur“

Fá olíu og vistir ef þörf krefur

Vandar Íslendingum ekki kveðjurnar

Færeyingar fá ekki olíu í Reykjavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert