Álið byggingarefni tónlistardraumanna

Ingveldur María Hjartardóttir
Ingveldur María Hjartardóttir Árni Sæberg

„Ég nota vaktafrí og kvöld eftir dagvaktir í æfingar og að semja. Nokkur lög hafa meira að segja orðið til í álverinu þegar mér leiðist einni með sjálfri mér,“ segir Ingveldur María Hjartardóttir sem stundar tónlistarnám í Berklee-tónlistarháskólanum í Boston í Bandaríkjunum. Námið er ekki það ódýrasta og kostar árið að sögn Ingveldar 6-7 milljónir króna. Til að mæta því vinnur hún myrkranna á milli í álveri Norðuráls á Grundartanga og þegar blaðamaður hitti hana, seint að kvöldi, var hún á vakt sem átti eftir að standa yfir fram undir morgun. „Þetta er alveg áreiðanlega ekki fyrir hvern sem er, en ég hef gaman af þessu,“ segir Ingveldur.

Í Berklee stundar hún tvískipt nám. „Þú kemst inn út á eitthvert ákveðið hljóðfæri, sem er söngur í mínu tilfelli, og svo velurðu þér aðalfag þegar þú ert kominn inn í skólann undir lok fyrsta árs. Ég valdi mér „Music business“, sem er viðskiptafræði með áherslu á tónlistargeirann,“ segir Ingveldur. Hún hefur lokið einu ári í skólanum og komst inn eftir áheyrnarprufur og viðtal við skólastjórnendur í London. „Ég legg svolitla áherslu á djasssöng og popprokk,“ segir Ingveldur.

Nokkrir Íslendingar hafa stundað nám við skólann en að sögn Ingveldar fá um 20% þeirra sem sækja um inngöngu. Hún fékk styrk fyrir hluta skólagjaldanna og segir hann dekka um þriðjung af gjöldunum. „Ég gæti ekki verið í skólanum ef ekki væri fyrir álverið og ég er mjög þakklát fyrir að vera með vel launaða vinnu þar. Svo er ég með námslán og áheitasíðu þar sem fólk getur heitið á mig og styrkt mig í náminu,“ segir Ingveldur.

Hún heldur tónleika á sunnudaginn þar sem hún mun flytja frumsamið efni. „Ég sem tónlist sem er allt frá kántrí og upp í rokk. Ég sem oft einfalda grunna en strákarnir í hljómsveitinni hjálpa mér svo að fara lengra með lögin,“ segir Ingveldur en umrædd hljómsveit er enn án nafns.

Álið hjálpar mér að gera það sem ég elska

Lífseig er sú goðsögn að álframleiðsla falli ekki í kramið hjá listamönum. Ingveldur segist ekki líta þannig á málið. „Maður verður að gera það sem maður þarf til að geta haldið áfram að gera það sem maður elskar. Álið hjálpar mér til þess. Álverið styrkir t.d. tónleikana, allir þar hafa verið ótrúlega hjálpsamir og þetta er mjög flott fyrirtæki að vinna hjá,“ segir Ingveldur.

Spurð um framtíðardrauma þá vonast hún til þess að geta lifað af tónlist. „Þetta snýst ekki um að vera fræg heldur um að leyfa öðrum að njóta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert